lokafjárlög 2012.
Virðulegur forseti. Nú hefur verið gagnrýnt árum saman að lokafjárlög komi allt of seint fram. Samkvæmt lögunum eiga þau að koma fram með ríkisreikningi til staðfestingar honum. Það hefur verið unnið í þessu og mig minnir að þau hafi komið um haustið 2013 fyrir árið 2011 en nú erum við að ræða lokafjárlög fyrir árið 2012 að vori 2014.
Þetta er ekkert nýtt, þetta hefur gengið illa og auðvitað hef ég fullan skilning á því að það er álag á starfsmönnum ráðuneytisins. Í sumum tilfellum er sama fólkið að vinna að lokafjárlögum og öðrum brýnum verkefnum þannig að þau eru þá sett til hliðar.
Spurningin er hvort á þessu sé tekið í nýju frumvarpi um opinber fjármál. Vill hæstv. ráðherra rifja upp með mér hvort lokafjárlög verði þá óþörf? Vill hann aðeins fara yfir það hvaða breyting verður varðandi ríkisreikning og lokafjárlög í nýju frumvarpi um opinber fjármál?