lokafjárlög 2012.
Frú forseti. Ég vænti þess að hv. þingmaður sé að vísa til þess þegar stofnanir fá ekki skýr svör, hvorki frá þinginu né ráðuneytunum, vegna eldri uppsafnaðs halla. Ég tek undir að það getur verið íþyngjandi fyrir viðkomandi stofnanir og þá dugar ekki fyrir þingið að segja: Ja, þið komuð ykkur sjálf í þennan vanda.
Það er fólk á bak við öll þessi störf í viðkomandi stofnunum og mikilvægt að til staðar séu hvatar til að ná árangri í rekstrinum án þess að öll fyrirhyggja sem sýnd er hverfi í að gera upp löngu liðna tíma. Þá getur verið skynsamlegra að klippa halann af, eins og verið er að gera hér og hv. þingmaður hafði orð á. Ég fór áðan yfir þær meginreglur sem lögin geyma um það hvernig eigi að standa að slíku og um leið hvaða stífu viðmið hafa verið lögð til grundvallar. Í þessari aðgerð núna eru þrjár stofnanir sem uppfylla sérstaklega þau ströngu viðmið en hugmyndin þar fyrir utan er að vinna með einstökum fagráðuneytum að því að greina aðrar stofnanir sem heyra undir viðkomandi ráðuneyti sem hafa eldri uppsafnaðan halla sem þær telja ómögulegt að vinna upp á næstu árum og gera aðgerðaáætlun, jafnvel með sérstöku samkomulagi eins og ég rakti áðan sem tæki til tveggja til þriggja ára og mundi tryggja að uppsafnaður eldri halli félli niður ef skilyrði samningsins yrðu uppfyllt.