143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[17:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma fram með þetta frumvarp til lokafjárlaga, reyndar 12 mánuðum of seint. Ég og fleiri hefðum viljað sjá það fyrr. Á dögum nútímatölvuvæðingar ætti þetta að sjálfsögðu að liggja fyrir tveim, þrem mánuðum eftir áramót. Risafyrirtæki úti í heimi skila ársreikningum í janúar eða febrúar þannig að það er hægt.

Það sem stingur í augun hérna eru aðferðirnar við að fella niður skuldir. Þær eru í sjálfu sér ágætar því að eins og komið hefur fram er mikilvægt að fyrirtæki glími ekki endalaust við gamlar skuldir frá fyrri tíð. Það gerir eiginlega allan reksturinn óbærilegan þannig að ég er alveg sammála því að fella þær niður.

Hins vegar stendur á síðu 90, með leyfi frú forseta:

„Athygli er einnig vakin á því að á liðinn 08-376 Bygging hátæknisjúkrahúss á lóð Landspítalans er gjaldfærður rúmlega 1.240 millj. kr. undirbúningskostnaður án fjárheimildar.“

Þarna voru áætlanir um að selja þennan kostnað sem svo varð ekki af. Hvernig geta menn farið í svona dæmi án fjárheimildar? Þó að meiningin hafi verið að selja á auðvitað að vera fyrir því fjárheimild.

Síðan er alltaf jafn leiðinlega spurningin um A-deild LSR þar sem sagt er að vanti 60 milljarða. Það er ekki tekið á því.

Í B-deildina vantar 400 milljarða. Er ekki meiningin að standa við kjarasamninga að því leyti?

Á morgun ræðum við skýrslu um Íbúðalánasjóð og þar vantar líka einhverja milljarða eftir því sem ég veit best.