lokafjárlög 2012.
Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að koma inn á lokafjárlögin. Ég verð nú að segja eins og hinir sem hafa talað að það er afar óheppilegt og eiginlega ekki hægt að láta það viðgangast mikið lengur að lokafjárlög komi svona seint fram. Ég tek undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal að þetta hefði átt að geta gerst skömmu eftir að ríkisreikningur var lagður fram. Ég sé eiginlega ekki hvers vegna það var ekki gert nema að það hafi ekki forgang í ráðuneytinu að klára þetta þó að það sé þingskjal en ekki ríkisreikningur. Við tökum hann ekki til umfjöllunar í sjálfu sér fyrr en í rauninni með þessu skjali.
Í ljósi þess má spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær getum við átt von á því að lokafjárlög fyrir 2013 líti dagsins ljós? Getur það orðið fljótlega eftir að ríkisreikningur liggur fyrir eða telur hann að þetta verði aftur svona seint á ferðinni? Ég tek undir það sem hann sagði, að við þyrftum að fjalla hér um eitthvað í samtímanum en ekki eitthvað sem er löngu liðið.
Mér finnst ég ekki hafa fengið nein svör við því af hverju átta mánuðir líða frá framlagningu ríkisreiknings og spyr því ráðherrann eftir því hvort hann sé sammála því að það sé ekki forgangsverkefni að klára þetta þegar reikningur liggur fyrir.
Við vorum einmitt að velta því fyrir okkur í fjárlaganefnd, eins og kom fram í andsvörum áðan, í sambandi við lokafjárlög, nýju lögin um opinberar fjárreiður, hvort þetta mundi verða til þess að lokafjárlög yrðu óþörf eða hvort þetta yrði með einhverjum allt öðrum hætti eða hvað mundi breytast. Þetta er nokkuð sem við þurfum að laga.
Eins og kemur fram hérna og hefur aðeins verið rætt og ráðherra fór yfir að einhverju leyti þá er gert ráð fyrir því að fella niður ansi háar fjárhæðir hjá þremur stofnunum og bornar eru fram einhverjar reglur sem eru teknar til og látnar ná aftur til ársins 2009. Það kemur ekki fram sérstaklega hvers vegna það ár var valið frekar en eitthvað annað. Það væri áhugavert að vita það, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. ráðherra svaraði mér í andsvari fyrir jólin, ég man ekki hvort það var í fjárlaga- eða fjáraukalagaumræðunni, þar sem hann sagði að það væri ekki tiltökumál að koma og kynna það fyrir fjárlaganefnd hvernig reglurnar væru. Hann sagði að viðmiðunar- eða verklagsreglur hefðu verið teknar saman í ráðuneytinu og kynntar í ríkisstjórn og sjálfsagt væri að fara yfir það með fjárlaganefnd á næstunni. Þetta var fyrir áramótin, í október.
Reglurnar virðast ekki liggja fyrir. Hér er í rauninni tekin pólitísk ákvörðun um að gera þetta án þess að verklagsreglurnar séu til staðar sem aðrar stofnanir geti hugsanlega gengið að. Þetta er spurning um jafnræði, eða hvað? Á þetta að vera bara eitt stakt mál núna í þessum lokafjárlögum? Aðrar stofnanir sem eru hugsanlega að klára sitt þriðja rekstrarár innan rammans, en eru með skuldahala, fá þær ekki sömu meðferð við lokafjárlög næsta árs? Við því vil ég fá svör.
Ég geri líka athugasemdir við það sem kemur fram á bls. 80 þar sem framhaldsskólarnir eru teknir sem ein stærð en ekki út frá stöðu hvers og eins þeirra. Mér finnst verulega óeðlilegt að taka heildarpakkann og segja að hann sé nokkurn veginn í lagi þegar vitað er að um er að ræða verulegan halla á mjög mörgum framhaldsskólum, að það dugi einhvern veginn því að málaflokkurinn kemur sem sagt ekki út með halla, þá sé það látið eiga sig. Ég spyr hvort ráðherranum finnist það eðlileg vinnubrögð.
Mig langar að nefna aftur þær þrjár stofnanir sem ég var að tala um hérna áðan. Telur ráðherrann að þetta sé verklagsregla eða hvort þetta sé einskiptisaðgerð? Við vitum alveg að þetta hefur áhrif á allt kerfið. Við erum að tala um marga milljarða.
Nú er vitað að hallinn á Landspítalanum á síðasta ári var um það bil 1,5 milljarðar. Það er sem sagt á fjórða ári miðað við reikniregluna hér ef við tölum um 2010, 2011 og 2012 sem Landspítalinn skilaði innan rekstrarrammans en strax árið þar á eftir var hann kominn í halla. Er þá ásættanlegt að fella þar niður? Maður spyr sig hvernig þetta eigi að virka.
Eins og kom líka fram hér áðan eiga mjög margar stofnanir við verulegan vanda að stríða. Af því að ráðherra nefndi sjálfur landbúnaðarháskólann sem er tekinn fyrir á bls. 80 má spyrja sig um nýjustu fréttir um að skólinn eigi núna að fara að endurgreiða. Það virkar á mann eins og menntamálaráðherrann sé í fýlu af því að hann hafi ekki náð að sameina skólann við Háskóla Íslands eins og hann ætlaði og var búinn að segjast ætla að gera. Sveitarfélagið setti sig upp á móti því, Bændasamtök Íslands líka og þingmenn kjördæmisins. Þá ákveður ráðherrann að nú verði bara skorið niður en annars hefði hann verið tilbúinn að setja 300 milljónir í þessa breytingu, skilst mér. Á þessu er ekki tekið, hvorki í núverandi fjárlagafrumvarpi 2014 né í þessum lokafjárlögum. Það er augljóst að ekki er verið að vinna samkvæmt hefðbundnum reglum þegar búið er að leggja fram fjárlög og síðan er ákveðið að gera þetta.
Í sambandi við niðurfellingar hafa sumar stofnanir verið að greiða upp skuldir sínar eins og Háskólinn á Akureyri sem aðlagaði reksturinn að því sem honum bar og endurgreiddi hallann og eflaust hafa fleiri gert það. Hér er augljóslega verið að mismuna. Aðalmálið er að þessi ákvörðun um halaklippingar er tekin núna 2014 en sett í lokafjárlög 2012. Mér finnst það afar sérstakt að við getum, ég segi ekki leikið okkur en hreyft fjárlögin svo langt aftur í tímann. Það getur ekki talist góð vinnuregla. Ég ætla mér að óska eftir áliti Ríkisendurskoðunar á þessu verklagi. Mér finnst það ekki passa í ferlið að við getum leyft okkur að fara með skuldirnar með þeim hætti sem hér er gert. Það er í rauninni ekki boðlegt að gera það.
Síðan langar mig að spyrja um endurgreiðslukröfuna á Isavia. Þar eru einmitt markaðar tekjur sem voru fyrir fram greiddar og síðan er tekjustofn til Isavia afnuminn 2011, held ég, og þar af leiðandi var ekki hægt að sækja fjármuni þangað til endurgreiðslu. Því er gert ráð fyrir því núna að á næstu sex árum komi Isavia til með að greiða 196 milljónir með lækkuðu ríkisframlagi. Mig langar að spyrja ráðherrann hvort hann sjái fyrir sér að innanlandsflug verði skert eða flugfargjöld hækkuð. Það hefur verið töluvert mikið rætt undanfarið, sérstaklega í ljósi samgöngumála. Það kostar um 60 þúsund að fljúga að austan og rúmlega 40 þúsund að fljúga frá Akureyri og til baka. Ég sé ekki fyrir mér að þessi gjöld geti með nokkru móti hækkað. Síðan eru auðvitað svokallaðar óarðbærar flugleiðir sem eru bara með fjárheimildir út þetta árið. Ég sé ekki alveg fyrir mér að hægt verði að hafa flugið óbreytt eða lækka flugfargjöldin eins og gerðar hafa verið kröfur um ef Isavia á að endurgreiða þetta.
Ég velti líka fyrir mér, af því að ráðherrann talaði aðeins um frumvarpið um opinber fjármál áðan, hvort hann viti af því að hér er verið að leggja fram frumvörp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um nýjar markaðar tekjur. Ég spyr hvort hann sé sáttur við að slíkt sé gert. Manni finnst hálfhjákátlegt ef það á að leggja fram frumvarp um opinber fjármál, sem á að auka aga í ríkisfjármálum, og hér liggur fyrir frumvarp um afnám markaðra tekna. Hvort tveggja á sem sagt að taka á þessu, en hér er síðan verið að leggja fram ný frumvörp og meira að segja í umsögn um annað þeirra kom fram að fjármálaráðuneytið hefði lagst gegn slíku en samt er frumvarpið lagt fram.
Ég spyr líka um afskriftir, þetta er í rauninni ekkert annað. Það mundi ekki ganga hjá venjulegu fyrirtæki úti í bæ að afskrifa í dag langt aftur í tímann gamla reikninga sem þó hefðu fallið til á einhverjum tímapunkti. Það er eðlilegt að maður sé búinn að loka fyrir það með ríkisreikningi. Þess vegna finnst mér mjög sérstakt að gera þetta. Getum við fært þetta með einhverjum öðrum hætti, t.d. á afskriftareikninga eða eitthvað slíkt eins og einhver fyrirtæki gera, ef búið er að gera samninga um það að ef viðkomandi haldi sig innan rekstrarrammans á þremur árum liðnum fái hann þetta niðurfellt? Þá yrði það væntanlega til 2012. Auðvitað þyrfti að taka ákvörðunina formlega. Ég spyr ráðherrann eftir því hvort hann telji eðlilegt að ákvörðun sem tekin er 2014 sé færð inn 2012. Ég vona að hann svari líka öðrum spurningum sem ég hef borið upp.
Ég læt þetta duga í bili.