143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[17:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Hún þekkir þessi málefni auðvitað býsna vel eftir setur sínar í fjárlaganefnd og það er einmitt það sem ég vil fá að víkja að í stuttu andsvari. Það var margra ára barátta að fá lokafjárlögin fyrr inn í þingið en var. Þegar ég hóf hér þingstörf komu lokafjárlög fjöldamörgum árum síðar og var náttúrlega algerlega ófremdarástand hversu lengi þau drógust. Það er mikilvægt í því að skapa nauðsynlegan aga og aðhald í ríkisfjármálunum að þessi frumvörp komi tiltölulega fljótlega eftir að viðkomandi fjárlagaári lýkur.

Ég held að það megi segja að á undanförnum 10 árum hafi að þessu leyti framkvæmd fjárlaga batnað umtalsvert. Bæði er orðið tíðara að fjáraukalög komi fram innan ársins og jafnvel áður en stofnað er til sumra þeirra útgjalda sem þar er verið að heimila og það hjálpar líka upp á formfestuna og agann í ríkisfjármálum, og eins eru lokafjárlögin farin að koma miklu fyrr inn.

Það veldur manni hins vegar áhyggjum að ákveðin teikn eru á lofti að því er virðist um að aginn sé að minnka í ríkisrekstrinum og það sé að verða tíðara að menn fari fram úr fjárheimildum, flytji með sér halla umfram þær viðmiðanir sem áður hafa verið. Þetta sáum við í skýrslu frá Ríkisendurskoðun á liðnu ári og ég vil inna hv. þingmann eftir því hvort á því hefur orðið einhver breyting eða hvort verið sé að taka (Forseti hringir.) á þeim þætti í fjárlaganefndinni sérstaklega, aganum í framkvæmd fjárlaganna.