143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[17:59]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Vegna þeirrar stöðu sem hér var eftir hrunið þegar við þurftum að skera mjög mikið niður hafa þessar stofnanir, eins og hefur margoft komið fram, verið komnar alveg inn að beini. Með tilkomu þeirra fjárlaga sem voru samþykkt í desember lá ljóst fyrir að sumar þeirra gætu engan veginn staðið við þau fjárlög sem þar voru boðuð. Við höfum heyrt að sumar stofnanir hyggist hreinlega ekki standa við þau.

Það er mikill einhugur í fjárlaganefnd, held ég að við getum sagt, um að reyna að bæta aga í ríkisfjármálum. Það er okkur öllum til hagsbóta að gera það. Hins vegar greinir okkur á um leiðina til þess, eins og hv. þingmaður kannski veit. Sú leið sem hér er verið að tala fyrir er ekki sú sem okkur hugnast, eins og farið var í í fjárlögunum. Þess vegna stöndum við frammi fyrir því enn frekar að það verða fleiri stofnanir sem fara fram úr fjárheimildum. Svo má auðvitað líka segja að þegar ráðherra leyfir sér að gera eins og menntamálaráðherra með Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, að ákveða núna í mars að láta skólann endurgreiða af því að hann vildi ekki taka neina afstöðu til málanna við gerð fjárlaganna vegna þess að hann ætlaði sér að sameina skólana, það er mjög sérstakt og ávísun á að hlutirnir gangi ekki vel fyrir sig.

Að öðru leyti held ég að nefndinni sem slíkri sé umhugað um að reyna að auka aga í fjármálum eftir bestu getu.