143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[18:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að það sé ákaflega brýnt verkefni hjá fjárlaganefndinni að ná aftur og halda þeim aga í framkvæmdinni í ríkisfjármálunum sem var viðvarandi á síðasta kjörtímabili, á árabilinu 2009–2013. Það er áhyggjuefni ef það er að slakna á aðhaldinu í ríkisfjármálunum.

Það var þannig á árunum fyrir hrun í stjórnartíð þeirra stjórnmálaflokka sem nú sitja illu heilli aftur saman í ríkisstjórn, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, að á hverju einasta fjárlagaári var gríðarleg framúrkeyrsla frá þeim áætlunum sem voru lagðar fram í þinginu. Það er óskaplega mikilvægt fyrir velferðarsamfélagið, stöðu ríkissjóðs til lengri tíma, lánskjör landsins og möguleika okkar á því að sækja fjárfestingu og aðra slíka hluti að hér sé vel haldið á.

Það tíðkaðist að leggja fram fjárlög á þeim tíma, árum saman, af Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki sem áttu sér ósköp litla stoð í veruleikanum. Þau voru kölluð sólskinsfrumvörp, voru miklar bjartsýnisáætlanir en síðan komu eftir á fjáraukalög með alls konar útgjöldum sem áttu ekkert heima í fjáraukalögum heldur í fjárlögum, og síðan mörgum árum seinna komu lokafjárlög og þar var verið að sópa hlutum undir teppið eða ofan í skúffu eftir atvikum. Ég vil inna hv. þingmann, bæði eftir því sem snýr að viðleitni nefndarinnar til að auka aðhaldið í fjármálunum en líka hvort hún telji að í þessu frumvarpi (Forseti hringir.) til lokafjárlaga sé verið að taka inn einhverja þætti sem ætti ekki að taka í lokafjárlögum heldur hefðu átt að koma í fjárlögum eða fjáraukalögum á sínum tíma.