143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[18:05]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Í þessu frumvarpi til lokafjárlaga er tekið á mörkuðum tekjum, þ.e. færðar eru til nýjar upplýsingar um markaðar tekjur, og síðan breytingum á gjöldum umfram heimildir. Þar munar mest um þá 7 milljarða sem eru vegna Íbúðalánasjóðs sem er það sem fært er niður og engir stjórnmálamenn taka ákvörðun um að afskrifa heldur er það eðlilega gert annars staðar. Það er stærsti parturinn af þessu öllu saman.

Ég get tekið undir með hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur þegar hún talar um að það sé álitamál þegar gamall halli er afskrifaður og ákvörðun tekin vorið 2014 um að það komi fram í lokafjárlögum fyrir árið 2012. Það má vera að það breyti litlu en það er að minnsta kosti álitamál sem ég held að sé mikilvægt að fara yfir.

Svo er það sem fram hefur komið hér að margoft er búið að tala um að aldrei skuli hafa verið hægt að fara eftir fjárreiðulögunum hvað lokafjárlögin varðar, þau hafi aldrei komið fram á sama eða svipuðum tíma og ríkisreikningur. Þó gerðist það haustið 2012 að mælt var fyrir lokafjárlögum fyrir árið 2011 í október 2012. Það var þó aðeins nær í tíma en núna þegar við erum að mæla fyrir lokafjárlögum fyrir árið 2012 í mars 2014. Það gerir hv. fjárlaganefnd erfitt fyrir og menn eru fúlir yfir því að þurfa að bakka og gramsa í fortíðinni þegar áhuginn stefnir meira á framtíðina og að skoða hvað hún beri í skauti sér.

Lokafjárlög fyrir árið 2012 gefa okkur þó tilefni til að staldra aðeins við og fara yfir ríkisfjármálin eins og þau voru frá hruni. Í sjálfu sér urðu ákveðin þáttaskil á árinu 2012 vegna þess að frumjöfnuður náðist og menn gátu horft fram í tímann, séð að áætlanir gætu staðist og heildarjöfnuður næðist á árinu 2014 eins og að er stefnt núna. Ný hæstv. ríkisstjórn hefur ákveðið að standa við það markmið sem fyrri ríkisstjórn setti. Það voru háleit markmið í sjálfu sér því að þegar ný ríkisstjórn tók við vorið 2009 blasti við stórkostlegur halli. Mig minnir að hann hafi verið um 216 milljarðar. Á honum var unnið af mikilli festu af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Ef maður skoðar línuritin frá árinu 2009 og út það kjörtímabil sést að allar súlur eru á sama veg, þetta er allt upp á við. Staða ríkissjóðs batnar, hagvöxturinn fer upp og kaupmátturinn einnig. Smátt og smátt gerðist það á síðasta kjörtímabili að við unnum okkur út úr fordæmalausum aðstæðum og þess vegna eygjum við góð markmið um að ná heildarjöfnuði á árinu 2014. Ný ríkisstjórn tók við góðu búi, vinstri stjórnin hafði tekið ansi hreint vel til eftir hægri stjórnina sem áður hafði verið og þau hagstjórnarmistök sem fyrri ríkisstjórnir framsóknar- og sjálfstæðismanna höfðu gert. Það má segja að nýja hægri stjórnin komi að dúkuðu borði hvað þetta varðar.

Við fórum blandaða leið skattahækkana og niðurskurðar. Það er vandrötuð sú lína að skera ekki svo mikið niður að þeir sem þurfa á þjónustu ríkisins að halda þurfi að bera þyngstu byrðarnar af hruninu og svo að skattleggja ekki svo mikið að bæði einstaklingar og fyrirtæki líði fyrir. Ég tel að það hafi tekist ótrúlega vel að þræða þessa fínu línu og þessa blönduðu leið og hún hafi reynst skynsamleg, enda benda allir hagtölur til þess að svo hafi verið.

Það var unnið eftir mjög aðhaldssamri ríkisfjármálastefnu en auðvitað var líka leitað að leiðum til að auka tekjurnar. Horft var til auðlinda þjóðarinnar, m.a. sjávarauðlindarinnar, og gerðar ráðstafanir til að koma inn með frumvarp til að þeir sem hafa sérleyfi til að nýta auðlindir þjóðarinnar greiddu sanngjarnt gjald sem mundi renna í ríkissjóð. Aldeilis var það þannig á síðasta kjörtímabili, og er áfram, mikilvægt að nýta auðlindina þannig að arðurinn renni til þjóðar í vanda. Það var unnið að því og síðan kemur ný ríkisstjórn og tekur þær tekjur niður þó að þær séu ekki felldar alveg út.

Það hefði verið glapræði að horfa ekki til þeirra tekna, einkum í ljósi þess að sjávarútvegurinn stóð sérlega vel allt síðasta kjörtímabil og skilar sögulegum arði til þeirra sem hafa sérleyfið núna. Einmitt á meðan bæði ríkissjóður og almenningur tapaði miklu af falli krónunnar er það sjávarútflutningurinn sem græðir. Sumir tala um ofsagróða í þeirri grein. Það hefði verið algerlega óábyrgt af stjórnvöldum að gera ekki tilkall til ákveðins hluta af þeim arði og þótt fyrr hefði verið.

Eftir þetta stórkostlega efnahagsáfall erum við mjög skuldug. Við skuldum um það bil 1.500 milljarða. Til samanburðar kostar það rétt um 20 milljarða að reka alla framhaldsskóla landsins á ári. Það sér hver maður að það hlýtur að vera forgangsverkefni að ná niður þessum skuldum vegna þess að af þeim erum við að borga háa vexti. Svo sannarlega gætum við nýtt þá aura sem fara í vaxtaniðurgreiðslur í velferðarmál. Ekki veitir af.

Það hlýtur að vera forgangsverkefni að komast í þá stöðu sem fyrst að geta greitt niður skuldir og það er stefnt að heildarjöfnuði árið 2014. Fjárlögin gerðu þó aðeins ráð fyrir 900 milljónum í afgang og auðvitað eru 900 milljónir fljótar að fara ef eitthvað kemur upp á en nú hafa okkur borist fréttir af auknum arði af hlut ríkisins í bönkunum. Vonandi nýtist hann okkur vel til að bregðast við áföllum sem hugsanlega koma upp eða þá til annarra góðra verka. Það blæs manni þeirri von í brjóst að sá aukni arður af bönkunum verði til þess að við höldum okkur réttum megin við núllið á árinu 2014.

Að þessu sögðu finnst mér mjög einkennilegt að í desember árið 2013, þegar við vorum að vinna með fjárlögin, hafi ekki verið hægt að áætla arð af bönkunum af meiri nákvæmni en raun ber vitni. Mikill munur er á áætlunum og þeim rauntölum sem núna blasa við, aðeins örfáum vikum eftir að við samþykktum fjárlög. Það hlýtur að vekja upp spurningar um þessar áætlanir og hvernig þær reynast þá sem stjórntæki því að auðvitað erum við að byggja ýmis verkefni á þessum áætlunum.

Virðulegi forseti. Ég talaði um að við hefðum á síðasta kjörtímabili farið blandaða leið með því að við skárum niður og hækkuðum skatta og reyndum að halda jafnvægi á milli. Eins og ég sagði áðan held ég að það hafi verið skynsamlegt og tekist ágætlega. Eitt af því sem ég var ánægðust með í þeim skattkerfisbreytingum sem farið var í á síðasta kjörtímabili var að þær leiddu til aukins jöfnuðar. Við reyndum að koma til móts við barnafólk um leið og færi gafst en auðvitað voru fyrstu árin eftir hrun okkur mjög erfið og við þurftum að skera niður í þeim málaflokkum sem við hefðum síst viljað gera en þurftum nauðsynlega að gera. Um leið og færi gafst var aukið í bæði barnabæturnar og fæðingarorlofið.

Þrepaskipting skattkerfisins var til bóta og varð til þess að auka jöfnuð í samfélaginu. Það er svo sannarlega von mín að hægri stjórnin sem nú er við völd fari ekki út í að einfalda skattkerfið því að það mun aðeins leiða til þess að þeir sem eru með hæstu tekjurnar fái afsláttinn. Margar skýrslur eru til um þetta þannig að vonandi gengur hægri stjórnin ekki alla leið hvað þetta varðar eins og hún hefur gert í mörgum öðrum málum.

Eins og fram kom í andsvari hæstv. ráðherra áðan er verið að endurskoða lög um opinber fjármál. Hæstv. ráðherra mun væntanlega mæla fyrir þeim á vordögum. Ég bind miklar vonir við það frumvarp, það var unnið á síðasta kjörtímabili og hefur verið haldið áfram núna og gefur manni von um að það gæti orðið góð sátt um flesta hluti þar. Við munum bæta umgjörðina um opinber fjármál, hvort sem það eru fjármál ríkisins eða sveitarfélaga, það eru þau tvö stóru stjórnsýslustig sem spila saman og þurfa að kallast á hvað þetta varðar.

Rúm fimm ár eru liðin frá hruni efnahagskerfisins og gengis íslensku krónunnar og um leið trausts á stofnanir samfélagsins. Hins vegar benda ýmsar hagtölur, og það var byrjað á árinu 2012, til þess að við værum að fara í rétta átt og raunin hefur verið sú. Strax á árinu 2012 var bjartsýni í samfélaginu farin að aukast og auðvitað mun hún vaxa um leið og við náum að vinna okkur út úr þessum fordæmalausu aðstæðum.

Ég tel það nokkuð gott að við eygjum núna, eftir rúm fimm ár, heildarjöfnuð og að við getum farið að skila afgangi. Við getum farið að horfa til framtíðar og velta fyrir okkur hvað það er sem við ætlum að leggja áherslu á núna þegar við höfum rétt úr kútnum. Þá skiptir mjög miklu máli að rödd jafnaðarmanna heyrist og að við byggjum upp samfélag eftir hrun með sjónarmið jafnaðarmanna að leiðarljósi.

Ekki viljum við fara aftur í sama farið og við vorum í fyrir hrun, sama farið sem leiddi okkur á þann hryllilega stað sem við vorum á fyrri part síðasta kjörtímabils, frá hausti 2008. Von mín er sú að við í stjórnarandstöðunni getum haft áhrif á stjórnarliða hvað þetta varðar.