143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[18:21]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hún kom ágætlega inn á muninn á því hvernig annars vegar síðasta ríkisstjórn tók á vandanum og hins vegar sú sem nú situr að völdum, bæði hvað varðar skattstefnuna og tekjuöflunina, sem skiptir auðvitað höfuðmáli hvort sem við erum að fjalla um lokafjárlög árið 2012 eða fjármál ríkisins yfirleitt. Ég get verið henni sammála um það. Ég held að af því að við sitjum báðar í fjárlaganefnd sé það einmitt hlutverk okkar að fylgja því eftir, af því að ég hef trú á því, því miður, að það geti komið til þess að halli verði á einhverjum stofnunum sem ekki er endilega gert ráð fyrir hér og taka þurfi á á einhvern hátt, að þar verði höfð að leiðarljósi sjónarmið okkar vinstri manna.

Mig langaði aðeins til að spyrja hana út í það sem tekið er á í þessu frumvarpi. Ég spurði ráðherra við fjárlagaumræðu í haust eða vetur um verklagsreglur af því að á bls. 79 eru tilteknir vegna niðurfellingar á þessum þremur stofnunum fjórir punktar sem ráðherrar leggur undir þegar hann ákveður að afskrifa þessar skuldir. Hann svaraði mér því að ekkert mál væri þegar búið væri að kynna þessar verklagsreglur fyrir ríkisstjórn að koma og kynna þær fyrir fjárlaganefnd. Ég spyr því hv. þingmann hvort hún telji ekki og sé mér sammála um að við þurfum að fá slíkar reglur og ekki sé hægt að hafa sína hentisemi hverju sinni með hvaða stofnanir fá þessa meðhöndlun og hvaða stofnanir ekki og hvort gerðir séu samningar við tilteknar stofnanir um þriggja ára rekstur innan rammans og þá fái þær niðurfellingar o.s.frv.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann hvort hún kemur til með að styðja þá beiðni mína að óska eftir áliti Ríkisendurskoðunar á því verklagi að færa þessar skuldir núna inn í 2012 sem hefðu miklu frekar átt að fylgja árinu 2013 þar sem verið að taka þessa ákvörðun 2014, eins og við höfum báðar rætt.