lokafjárlög 2012.
Herra forseti. Í framhaldi af því sem hv. þingmaður kom inn á um uppbyggingu sem fyrirhuguð var og viðurkennd, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, bæði varðandi framhaldsskólana og heilbrigðisstofnanir endurspeglar það það sem hún sagði í ræðu sinni um skattstefnuna og tekjuöflunina, á því steytti einmitt þegar við vorum við fjárlagaumræðuna. Við sáum fyrir okkur að geta sett fjármuni í þá þætti en af því að ríkisstjórnin ákvað að afsala sér ákveðnum tekjum, eins og við þekkjum, er auðvitað minna afgangs.
Mig langar að koma aðeins inn á það, af því að hv. þingmaður minntist á í ræðu sinni meiri halla eða arð frá Landsbankanum, að líka er ljóst að Landsvirkjun kemur til með að skila minni arði en gert var ráð fyrir, a.m.k. miðað við tapið sem nú blasir við. Ég vil spyrja hv. þingmann um það, af því að hún var fjármálaráðherra, þegar koma inn auknar tekjur og jafnvel mun meiri en gert var ráð fyrir, ef við gæfum okkur að bæði Landsvirkjun og Landsbankinn hefðu skilað meiri hagnaði eða arði til ríkisins, hvort ráðstöfun þess fjár þurfi ekki að koma fyrir þingið ef um er að ræða verulegar fjárhæðir eða hvort ríkisstjórnin getur á hverjum tíma ákveðið hvort hún greiðir niður skuldir eða gerir eitthvað annað við þá fjármuni, af því að það er lögbundið hlutverk þingsins að ákveða hér fjárlög. Ég tek undir með henni að það er skrýtið að það skuli ekki hafa verið áætlað betur, en hvað finnst henni um þetta? Og síðan vinnulagið sem nú blasir við okkur vegna Landbúnaðarháskólans af því að hann er líka nefndur hér og svo hefur ráðherra komið fram með afar sérstæðar tillögur.