lokafjárlög 2012.
Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um þetta. Ég held að fyrsta skrefið sem var stigið þegar þáverandi fjármálaráðherra Katrín Júlíusdóttir ákvað að opna aðgang að grunngögnum í fjármálaráðuneytinu hafi skipt miklu máli. Maður sér að það eru fyrirtæki sem hafa þróað leiðir, eins og Data Market, til að setja staðreyndir ríkisfjármála fram á myndrænan hátt þannig að þær eru mjög til skilningsauka fyrir jafnt leika og lærða. Það er mjög mikilvægt með þeim hætti að greiða fyrir nýsköpun á framsetningu á upplýsingum um ríkisfjármál.
Ég vil síðan taka undir með hv. þingmanni að auðvitað er aldrei gefið að ríki komist með lýðræðisskipulag sitt og félagslega samstöðu ósködduð í gegnum efnahagsleg áföll eins og það sem við gengum í gegnum. Mér finnst við of oft gleyma því hversu tæpt þetta gat staðið og að það var aldrei sjálfgefið að við næðum þessu. Mér er minnisstætt að þegar ég var félagsmálaráðherra og tók við var atvinnuleysið að aukast um það sem nam nokkurn veginn einu prósentustigi á mánuði. Aðalverkefnið var að ná að skrá allt fólkið. Það voru engin úrræði í boði, það voru engin tækifæri til þess. Á sama tíma þurfti ég að leggja fram tillögur um niðurskurð og það blasti auðvitað við að reyna að skera niður fjárhæð atvinnuleysisbóta. Okkur tókst að forða því, við skertum ekkert lágamarksbætur almannatrygginga, ekki um eina einustu krónu. Það er einstakt sögulegt afrek í ljósi þeirra erfiðleika sem við stóðum frammi fyrir og mikilvægt að muna að við náðum að takast á við vandann með því að þeir sem mest höfðu milli handanna báru þyngstar byrðarnar í samræmi við öll grundvallarviðmið um réttlæti og félagslega samstöðu.