lokafjárlög 2012.
Virðulegi forseti. Ég man að árið 2009 var afkoma ríkissjóðs betri en í fjárlögum þannig að það var ekki framúrakstur það árið. Eins og ég segi þykist ég muna að hafa séð samanburðarsúlur (Gripið fram í.) í greinargerð með fjárlagafrumvarpi sem sýndi betri árangur að þessu leyti á síðasta kjörtímabili en fyrri tíð, þannig að agi í ríkisfjármálum hafi þvert á móti aukist frá fyrri tíð á síðasta kjörtímabili. Það er auðvitað hægt að horfa á árangur ríkisfjármála í fjármálaráðherratíð Sjálfstæðisflokksins fram til ársins 2008 og velta því fyrir sér hvort hann sé betri. Ég tel, án þess að ég hafi handbærar tölur, augljóst hver niðurstaðan er í þeim samanburði. Efnið í greinargerðinni með fjárlagafrumvarpinu í haust var afskaplega skýrt að mínu viti, að því leyti. Ég þykist muna það vel.
Það er síðan viðvarandi verkefni okkar núna þegar við erum komin út úr kreppuumgjörðinni að halda vel utan um umgjörð ríkisfjármálanna, að tryggja að þessi þróun haldi áfram að vera jákvæði þannig að bilið milli lokafjárlaga og fjárlagafrumvarps verði sífellt minna og minna og forspárgildi fjárlaganna verði stöðugt meira um hið raunverulega ástand ríkisfjármála. Það á að sjálfsögðu að vera reglan í efnahagslegum stöðugleika, sem er það sem við hljótum öll að vera að stefna að.