lokafjárlög 2012.
Virðulegur forseti. Það hafa verið áhugaverðar umræður hér um lokafjárlögin og ekki síst innleggin sem við höfum fengið frá þeim hv. þingmönnum sem sitja í fjárlaganefnd þingsins. Ég átti þess kost á mínu fyrsta kjörtímabili í þinginu, 2003–2007, að sitja í þeirri hv. nefnd og kynnast býsna vel þeim mikilvæga þætti í ríkisrekstrinum sem framkvæmd fjárlaganna er og aðhaldið með framkvæmdinni. Á þeim tíma, fyrir liðlega áratug síðan, var það satt að segja ekki ýkja beysið.
Þá var verklagið þannig að fjáraukalög gátu verið að koma eftir að fjárlagaárinu var lokið sem þau áttu við um í stað þess að koma inn á því ári þegar veita átti aukafjárveitingarnar, og lokafjárlög komu hingað mörgum árum eftir að viðkomandi fjárlagaári var lokið. Það var iðulega verið að moka ýmsu með, bæði í síðbúnum fjáraukalagafrumvörpum og eins í lokafjárlögum þegar þau komu hér til afgreiðslu, þó að svigrúmið í þeim síðarnefndu sé út af fyrir sig minna.
Þá var það hins vegar þannig að munurinn á fjárlagafrumvarpinu eins og það kom fram í þinginu 1. október og síðan niðurstöðunni sem blasti við mörgum árum síðar þegar loksins komu lokafjárlög fyrir viðkomandi fjárlagaár gat verið gríðarlegur og mörg ár í röð jafnvel reyndust útgjöld í lokafjárlögum vera miklum mun hærri en samþykkt hafði verið í fjárlögum á sínum tíma fyrir viðkomandi ár. Það gat þess vegna dregist fram á kjörtímabilið á eftir að sýna niðurstöðuna í lokafjárlögunum. Þetta var auðvitað algerlega óviðunandi umbúnaður og ég held að það hafi verið mikil framför í fjárreiðulögunum. Sannarlega gerist það síðan með efnahagshruninu og þeirri gríðarlegu erfiðu stöðu sem þá skapast í ríkisfjárlögum að þetta batnar allt til mikilla muna og agi og aðhald í framkvæmd fjárlaga. Þar er mjög mikilvægt að þær áætlanir sem ríkisstjórnin leggur fyrir þingið á haustinu séu raunhæfar. Satt að segja var það þannig árum saman að það var nánast fremur regla en undantekning að forstöðumenn ríkisstofnana fóru fram úr þeim heimildum sem fjárlög höfðu veitt þeim. Oft og iðulega var það af illri nauðsyn því að þeir höfðu einfaldlega ríkulegar lagaskyldur um mikilvæga og jafnvel lífsnauðsynlega þjónustu sem menn höfðu á engan hátt horfst í augu við við gerð fjárlaga og þess vegna einfaldlega gerð óraunhæf áætlun um framkvæmd ríkisrekstrarins á viðkomandi ári. Þar er gríðarlega mikilvægt aðhaldið sem fjárlaganefndin þarf á hverjum tíma að veita framkvæmdarvaldinu, m.a. í því að fara yfir þær áætlanir sem eru í gildi fyrir hverja og eina stofnun ríkisins og hlýða á mál forstöðumanna einstakra stofnana og ef þeir hafa ábendingar um að eitthvað í fjárlögunum sé vanáætlað eða muni sannarlega ekki standast er mikilvægt að fjárlaganefndin bregðist við slíkum ábendingum.
Hér skiptir sjálfstæði þingsins mjög miklu máli og sjálfstæði fjárlaganefndarinnar gagnvart ráðherra. Ég minnist þess, ég hygg að það hafi verið á árinu 2005, að tekist var á milli þingsins og framkvæmdarvaldsins um grundvallaratriði sem að því lýtur en þá sendi fjármálaráðuneytið út, held ég að ég muni rétt, erindi á alla forstöðumenn stofnana og lagði fyrir þá að þeir mættu ekki leita til fjárlaganefndar með málefni sín og stofnana sinna heldur skyldu þeir einvörðungu eiga samskipti um fjárhagsmálefni sín við sitt fagráðuneyti og/eða fjármálaráðuneytið. Þetta var ein af mörgum tilraunum framkvæmdarvaldsins í gegnum tíðina til að takmarka þær upplýsingar sem þingið fékk í raun um hinn fjárhagslega veruleika sem blasti við úti í ríkisstofnununum og var tekið á því fast og myndarlega af þáverandi forustu fjárlaganefndar að koma í veg fyrir að á þennan hátt væri girt fyrir möguleika þingsins til að fá upplýsingar frá stofnununum ef þær töldu að áætlanir fjárlaga um þeirra fjárhag væru algerlega óraunhæfar miðað við þann rekstur sem tæki við. Þetta er auðvitað ekki síst mikilvægt vegna þess að oft og tíðum er það þannig í ríkisrekstrinum að það getur tekið býsna langan tíma að hafa áhrif á sérstaklega útgjaldaþátt stofnana. Tekjuáhrif geta verið skilvirkari í því að tekjur fara að skila sér miklu fyrr eftir að ákvörðun er tekin en þegar útgjöldin eru annars vegar getur einfaldlega tekið mjög langan tíma að gera nauðsynlegar ráðstafanir í rekstrinum til að ná fram sparnaðar- eða hagræðingarmarkmiðum. Áætlanir sem settar eru fram um slíkt undir lok eins árs og eiga að ná fullum áhrifum strax á árinu á eftir eru oft og iðulega algerlega óraunsæjar vegna þess að til að draga úr kostnaði getur þurft að fækka fólki og það er satt að segja ekki hlaupið að því að gera það í ríkisrekstrinum, einfaldlega af því að lögin eru þannig að það er ekki á einfaldan hátt gert. Ef á að draga úr mannahaldi getur þurft að skipuleggja það lengra fram í tímann og þess vegna er lengra í að slíkur árangur náist. Ef slíkt óraunsæi er uppi í áætlununum sem lagðar eru fyrir þingið er gríðarlega mikilvægt að þingið hafi aðgang að beinum og milliliðalausum upplýsingum um þetta.
Að því sögðu er um leið mikilvægt þegar áætlanirnar eru raunsæjar og fjárlagaramminn í samræmi við þær lagaskyldur sem lagðar eru á stofnanirnar að því sé fylgt mjög fast eftir af, bæði framkvæmdarvaldinu en ekki síður af fjárlaganefndinni og Ríkisendurskoðun og þeim aðilum sem um þetta eiga að véla, að stofnanirnar haldi sig innan þess ramma sem var settur á. Í því varð auðvitað mjög ánægjuleg breyting við þá efnahagslegu erfiðleika sem við lentum í. Þar tóku mjög margir á, náðu miklum árangri í því að fylgja fjárlögum og það skapaðist mikill agi sem er mikilvægt fyrir okkur að varðveita og ekki bara varðveita heldur gera betur. Ég er algerlega sannfærður um að þótt mikill árangur hafi náðst í því að auka aga og aðhald í ríkisrekstrinum á síðasta kjörtímabili sé hægt að gera betur. Það er áhyggjuefni ef þau skilaboð eru rétt að það sé að slakna á aðhaldinu í ríkisfjármálum vegna þess að það á þvert á móti að auka þau. Við eigum að auka enn aga og aðhald í þeim efnum. Ég held að þó að það sé betra en áður var að fá hér inn lokafjárlög til umræðu fyrir árið 2012 í mars árið 2014 sé hægt að gera betur. Við eigum að hafa metnað til að gera betur. Í öllum rekstri hefur verið lögð á það gríðarlega mikil áhersla, ekki síst eftir að upplýsingatæknin kom með alla sína möguleika, að vera sem allra mest með samtímaupplýsingar, að fylgjast með stöðu mála frá degi til dags og vera með endurskoðuð uppgjör eins fljótt og kostur er til að sjá ef verið er að beygja af leið. Þegar við horfum á að stórar fjárhæðir hafa verið að koma inn á fjáraukalögum og í lokafjárlögum á umliðnum árum er mikilvægt að þær upplýsingar komi inn sem allra mest jafnharðan, bæði til framkvæmdarvaldsins og þingsins, til að geta leiðrétt kúrsinn í ríkisfjármálunum sem heild eða tekið afstöðu til þess að það eigi ekki að gera þrátt fyrir einhver ný útgjöld sem stofnað hefur verið til.
Ég held að ríkisvaldið og raunar hið opinbera almennt eigi gríðarlega mikla ónýtta möguleika í upplýsingatækni og þá bæði í því að vera með enn nýrri gögn í allri umfjöllun okkar um fjárlög og framkvæmd fjárlaga, ferskari upplýsingar þannig að hægara sé að bregðast við ef áætlanir ganga ekki eftir, en líka í því að veita almenningi betri upplýsingar, ekki bara okkur í þinginu heldur líka almenningi í landinu og auðvitað fjórða valdinu, fjölmiðlunum, betri upplýsingar, meiri upplýsingar, nýrri upplýsingar og tíðari upplýsingar um framgang ríkisfjármála. Ég held að við getum satt að segja gert miklu betur í því og ég held að það sé talsvert mikið sem við getum sótt í slíkt aðhald frá fleirum en þinginu og þá ekki síst frá almenningi sjálfum einfaldlega í ávinningi, vegna þess að ef almenningur hefur betri og greiðari aðgang að upplýsingum um ríkisfjármálin og hvernig framkvæmd þeirra er á hverjum tíma skapar það aðhald frá almenningi sem enn getur styrkt rammann í kringum fjárlögin og framkvæmd þeirra og bætt hana enn umtalsvert.
Það eru gríðarlegir möguleikar sem hafa falist í hinni miklu tækniþróun í upplýsingaiðnaðinum á undanförnum áratugum og það er náttúrlega þannig að það er atvinnulífið og einkafyrirtækin, og sum opinber fyrirtæki líka, sem eru komin langt á undan ríkinu í þeim efnum og auðvitað ákveðið áhyggjuefni hversu brösótt sagan af upplýsingakerfum ríkisins í fjármálum hefur verið, á köflum sorgarsaga og gríðarlega dýr og kostnaðarsöm. En ég held að við eigum mikla og ónýtta möguleika, bæði í því að vera með nýrri upplýsingar, og þar með betri upplýsingar, og í því að miðla þeim upplýsingum til almennings. Kannski er of mikið af liðum í ríkisfjármálunum sem eru meðhöndlaðir sem einhvers konar leyndarmál eða teljast ekki vera opinberar upplýsingar. Ég held að það séu ýmsar upplýsingar í fjármálum ríkisins sem eru ekki opinberar en mættu vera það og munu trúlega verða það í framtíðinni eftir því sem almenningur gerir ríkari kröfu um aðgang sinn að upplýsingum um ráðstöfun á skattfé.