143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[19:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti Ég vísa nú til skýrslna Ríkisendurskoðunar um þetta efni, þ.e. agann í ríkisfjármálunum á síðasta kjörtímabili og þær áhyggjur sem menn hafa af því að slaknað hafi á því aðhaldi og þeim aga. Þær kunna að vera réttar, ég ætla ekki að rengja hv. þm. Pétur Blöndal um þær tölur sem hann nefnir en ég hygg án þess að hafa flett upp í ríkisreikningunum fyrir þau ár sem hann nefnir í þessum stuttu andsvörum að þær skýrist fyrst og fremst af ýmsum einskiptisaðgerðum og stærri útgjaldaliðum. En þegar hv. þingmaður skoðar hverja einstaka stofnun, hvern einstakan framhaldsskóla, háskóla, hvern einstakan útgjaldalið sem er á færi forstöðumanna ríkisstofnana að framfylgja og á færi ráðuneyta að hafa eftirlit með þá sé allur agi á þeim fjárlagaliðum miklum mun betri en áður var.

Þetta skýrist að langstærstu leyti af þáttum sem fylgdu í kjölfar hrunsins, höfðu í för með sér ófyrirsjáanlegan kostnað fyrir ríkissjóð sem ekki var hægt að hafa neinn aga eða aðhald á í framkvæmd. Þetta voru bara reikningar sem féllu á ríkissjóð illu heilli.

Hitt sem hv. þingmaður hóf mál sitt á finnst mér hins vegar vera fagnaðarefni, sú sýn um það sem rímar ágætlega við það sem ég vakti máls á og snýr að upplýsingatækni að við eigum að geta gert miklu betur í því að vera með nýjar upplýsingar og þar með betri upplýsingar. Og sýn þingmannsins um það að við ættum á þessum tíma árs ekki að vera að fjalla um lokafjárlög fyrir árið 2012 heldur lokafjárlög fyrir árið 2013 er metnaðarfull sýn sem ég held að við eigum að stefna að að ná fram.