143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[19:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir svarið. Hv. þingmaður ætti nú bara að kíkja á það svar sem ég fékk frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra á þskj. 1374. Þar eru nefnilega líka talin upp fyrirtæki og hvernig þau fóru að fjárlögum, og langur listi þar sem ýmsar stofnanir fóru mismunandi mikið fram úr fjárlögum. Menn geta glöggvað sig á þessu. Það liggur fyrir í löngum lista, langur listi er yfir það sem fór fram úr. En í heildina er þetta hinn svokallaði agi, ríkisreikningur sýnir 101 milljarð á þessum þrem árum, umframkeyrslu þar sem ríkissjóður eyddi peningum sem ekki voru heimildir fyrir. Það voru ekki heimildir fyrir því, hvorki í fjárlögum né fjáraukalögum. Samt var peningunum eytt og það kalla ég ekki aga.

En varðandi sýnina um að reikningar liggi fyrr fyrir bendi ég á risastór alþjóðleg fyrirtæki sem starfa um allan heim, þau eru komin með ársreikninga í lok janúar eða byrjun febrúar.