143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[19:18]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla síst allra að draga úr metnaði manna til að krefja um það að fjárlög séu virt, að agi sé og aðhald í framkvæmd þeirra. Það segir kannski sína sögu um hversu ástandið var slæmt í ríkisfjármálum þegar ég og hv. þingmaður komum til þings á sínum tíma að það kjörtímabil og þær tölur sem hv. þingmaður vísar til og ég rengi ekki voru eigi að síður miklu betri í framkvæmd fjárlaga en verið hafði.

Ég er sammála þingmanninum í því að við eigum að geta gert enn betur. Áhyggjuefnið er að skilaboðin frá Ríkisendurskoðun eru þau að nú sé heldur að slakna á þeim aga og aðhaldi sem þó náðist á árunum 2009–2013. Ég ítreka að verulegur hluti af þeim þáttum skýrist af útgjöldum sem voru einfaldlega reikningar sem féllu á ríkissjóð eftir hrun.

Vissulega hafa margar stofnanir farið fram úr fjárlögum að einhverju leyti en við verðum auðvitað líta að horfa til þess að við lítum svo á að það sé eðlilegt og innan marka að stofnanir geti farið allt að 4% fram úr fjárheimildum á yfirstandandi ári vegna þess að áætlanir urðu aldrei það nákvæmar að ekki geti verið nokkur afgangur á einu ári en farið nokkuð fram úr á öðru. Margar stofnanir náðu þessu iðulega á árunum í kjölfar kreppunnar og mikilvægt að við gerum á næstu árum enn betur en slökum ekki á í þessu.