143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[19:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi lög um opinber fjármál. Þau hef ég lagt fram í ríkisstjórn og vonast til þess að geta kynnt þau í þinginu áður en langt um líður og að sjálfsögðu helst af öllu fyrir framlagningarfrestinn. Þar er að finna þá nýjung sem lýtur að lokafjárlagagerðinni en það er í sjálfu sér minni háttar atriði í heildasamhengi þess máls.

Til að svara því sem snýr að uppsöfnuðum eldri halla get ég eingöngu sagt að við höfum ekki farið í heildstæða úttekt enn sem komið er á öllum uppsöfnuðum eldri halla í kerfinu sem óraunhæft er að gera ráð fyrir að hægt sé að eyða með hefðbundnum fjárheimildum framtíðarinnar. En í því felst að sjálfsögðu ákveðin afstaða um leið því að það hafa ekki verið færðar inn, hvorki í lokafjárlög né fjárlög hvers árs á undanförnum árum, sérstakar fjárheimildir til að taka á þeim vanda. Í því felast skýr skilaboð til allra stofnana sem í hlut eiga um að þar hafi menn í viðkomandi tilvikum farið fram úr heimildum sem þingið hafi samþykkt og við það verði einfaldlega ekki unað og mönnum beri að finna leiðir til að jafna þá stöðu.

Síðan verður hins vegar að viðurkennast að þegar slíkur rekstrarvandi og halli er orðinn margra ára gamall og menn hafa tekið á stöðunni og það þykir fullreynt þá kemur einhvern tíma þessi tímapunktur og í því efni munum við í fjármála- og efnahagsráðuneytinu (Forseti hringir.) treysta á samskipti við fagráðuneytin um að finna til þau tilvik og taka á þeim.