143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[19:29]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og er gott að heyra að frumvarpið er væntanlegt. Þá er kannski næsta spurning í framhaldi af því hvort það sé hugsunin hjá hæstv. ráðherra að sýna frumvarpið á þessu þingi, sem kallað er, þ.e. leggja það fram, senda það þannig út til umsagnar og fá inn viðbrögð en taka það síðan aftur inn á næsta þingi til vandaðrar umfjöllunar, eða hvort hann telji málið vera þannig úr garði gert að raunsætt sé að það geti orðið að lögum á þessu þingi sem lýkur nú um miðjan maí samkvæmt gildandi starfsáætlun.

Í öðru lagi. Hleypur uppsafnaði eldri hallinn í heild á milljörðum króna eða hleypur hann á tugmilljörðum króna?

Að lokum, vegna þess að sökum tímans gat hæstv. ráðherra ekki brugðist við þessu með samtímaupplýsingarnar, ítreka ég það og vil kanna viðhorf ráðherrans til þess hvort auka eigi þær upplýsingar um fjármál ríkisins og einstaka liði í fjármálum ríkisins sem eru opinberar upplýsingar og aðgengilegar almenningi, setja fjármál ríkisins í ríkari mæli út á netið og gefa almenningi færi á því að fylgjast með sem nýjustum og bestum upplýsingum og veita þannig ríkisrekstrinum líka aðhald, ekki bara héðan úr ráðuneytum og þingi heldur líka frá almenningi.