lokafjárlög 2012.
Herra forseti. Sá uppsafnaði eldri vandi sem við erum að ræða hleypur að mínu áliti alls ekki á milljarðatugum, enda væri það stóralvarlegt mál ef við værum með í uppgjöri ríkisins uppsafnaðan tugmilljarða halla sem við sæjum augljóslega að við gætum ekki gert upp án sérstakra fjárveitinga eða sérstakrar ákvörðunar um niðurfellingar. Ég hygg hins vegar að hann kunni að mælast í einhverjum milljörðum. Ég vek athygli á því að í þessu frumvarpi er verið að leggja til að tekið verði á uppsöfnuðum vanda hjá þremur tilteknum stofnunum, þar á meðal Landspítalanum vegna rekstrarhalla á fyrri árum og upphæðirnar sem eru undir hjá þeirri stóru ríkisstofnun gefa ekki tilefni til að ætla að vandinn í heild sinni hlaupi á milljarðatugum.
Varðandi frumvarpið um opinber fjármál er það mín hugsun að það frumvarp verði að lögum fyrir næstu áramót. Ég tel engu að síður mikilvægt að við komum málinu í umræðu á þessu þingi. Jafnvel þótt ekki tækist að ljúka því og gera það að lögum fyrir sumarið mundi sú vinna nýtast og þær umsagnir sem frumvarpið fengi ef nefndin sendi það út til umsagnar, þær mundu gagnast í áframhaldandi vinnu við málið. Þetta er mál af þeirri stærðargráðu að það þarf að gefa því góðan tíma en þetta er líka mál þess eðlis að það skiptir miklu að við náum sem mestri þverpólitískri samstöðu um að fella vinnu við fjárlagagerðina og framkvæmd fjárlaganna í framhaldinu í þennan nýja farveg.