143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

tillögur Orkustofnunar um virkjunarkosti.

[10:40]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Tillögur Orkustofnunar um 91 virkjunarkost sem lagðar hafa verið fram hafa vakið talsverða athygli. Þar af eru 27 nýir virkjunarkostir og í hinum hópnum eru ýmsir kostir sem þegar hafa verið flokkaðir í verndarflokk eða eru jafnvel á náttúruminjaskrá. Hér má nefna Torfajökulssvæðið, Jökulsá á Fjöllum, sem lagt er til að verði veitt í Jökulsá á Dal, og jarðvarmasvæði við jaðar Torfajökuls sem koma ný inn. Þetta eru mörg svæði, mörg hver mjög merkileg sem Orkustofnun hefur óskað eftir að verkefnisstjórn um rammaáætlun fjalli um. Þar af eru ýmsir kostir sem þegar hafa verið flokkaðir í verndarflokk af faglega skipaðri verkefnisstjórn og voru samþykktir í verndarflokk af löggjafanum í tillögu um rammaáætlun.

Ég velti fyrir mér í ljósi þess að því hefur verið haldið fram að allt sé þetta lögum samkvæmt, að samkvæmt lögum um rammaáætlun er það ekki skylda Orkustofnunar að leggja til kosti. Henni er vissulega heimilt að leggja til virkjunarkosti en það er ekki skylda hennar. Samkvæmt lögum um rammaáætlun er líka kveðið á um að hæstv. umhverfisráðherra beri að hefja friðlýsingarvinnu við þá kosti sem flokkaðir eru í verndarflokk.

Ég vil því inna hæstv. umhverfisráðherra, sem ber að standa hér vörð um umhverfið: Telur hann það samrýmast anda laganna um rammaáætlun að Orkustofnun geri þær tillögur að virkjunarkostum sem flokkaðir eru í verndarflokk og óski eftir endurmati í ljósi þess að væntanlega stendur friðlýsingarvinna við þessa kosti yfir núna vegna þess að þeir hafa verið samþykktir í rammaáætlun? Telur hæstv. umhverfisráðherra, sem ég veit að er mikill áhugamaður um sátt í þessum málaflokki, þetta útspil líklegt til að stuðla að sátt um málaflokkinn í ljósi þess að Alþingi hefur samþykkt þessa kosti í verndarflokk? Telur hann það eðlilegt vinnulag að Orkustofnun taki þarna upp tiltekna túlkun laga sem vissulega (Forseti hringir.) má túlka líka með öðrum hætti, þegar við höfum hér á Alþingi verið að reyna að stuðla að faglegu vinnuferli um hvernig við metum virkjunarkosti?