143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

tillögur Orkustofnunar um virkjunarkosti.

[10:44]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Spurning mín laut ekki að því að Orkustofnun hefði ekki heimild til þessa samkvæmt lögum. Mér er kunnugt um að Orkustofnun heyrir undir hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra vísar hér til, en rammaáætlun heyrir undir hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra. Ég verð að segja að mér þykir að rammaáætlun vegið þegar Orkustofnun tekur það upp að eigin frumkvæði, sem henni er heimilt að gera en ber ekki skylda til, að leggja til virkjunarkosti sem nýlega hafa verið samþykktir í verndarflokk. Ég spyr hæstv. ráðherra á nýjan leik hvort honum finnist, af því að hann skildi það eftir opið, það samrýmast anda samþykktrar þingsályktunar á þingi.

Ef menn ætla virkilega að halda sig við þá nauðhyggju laganna, sem ég tel að hafi svolítið birst í þessari umræðu, þá spyr ég ráðherra: Ætlar hann að beita sér fyrir því að aukið fé fáist í friðlýsingar þessara svæða, sem honum ber skylda til að vinna að, þannig að þeim sé hægt að ljúka og að þessum svæðum verði komið í skjól þannig að við þurfum ekki að horfa upp á að þau séu stanslaust (Forseti hringir.) rifin aftur upp á borðið sem mögulegir virkjunarkostir, jafnvel þó að Alþingi sé búið að samþykkja að setja þessi svæði í verndarflokk?