143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

menningarsamningar.

[10:56]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni, það fyrirkomulag hefur gilt um menningartengda ferðaþjónustu að hún hefur fallið undir menningarsamninga sem gerðir hafa verið í samstarfi nokkurra ráðuneyta. Það er verið að breyta fyrirkomulagi þessara útgreiðslna þannig að vaxtarsamningar og annað sem áður heyrði undir iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur nú færst til byggðamálaráðherrans sem er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þannig að í heild sinni mun sá ráðherra fara með yfirumsjón á þessu verkefni.

Ég get fullvissað hv. þingmann um að fjárveitingar til einstakra verkefna og einstakra sviða, svo sem ferðamála, verða svipaðar og undanfarið ár. Sú fjárveiting sem hv. þingmaður vísar til frá iðnaðarráðuneytinu inn í menningarsamningana varðandi ferðaþjónustuna var skorin af í tíð síðustu ríkisstjórnar en ráðuneytið hefur greitt af sínu verkefnafé inn í þetta.

Nú verður þessu fyrirkomulagi breytt og yfirumsjón og forræði þessara mála í heild sinni verður á höndum byggðamálaráðherra.