143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[11:36]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er margt sem kom upp í hugann og væri forvitnilegt að spyrja þingmanninn frekar út í. Ég gat ekki betur skilið en að undir lok ræðu sinnar léti hv. þingmaður að því liggja að margir þeirra einstaklinga sem eru nafngreindir í skýrslunni hefðu fremur verið dæmdir af pólitískum tengslum sínum en verkum. Mig langaði að inna hv. þingmann eftir því hvort þetta hafi verið réttur skilningur þess sem hér stendur.

Síðan vil ég segja að miðað við þetta álit má segja að að einhverju leyti sé þetta ákveðinn áfellisdómur yfir rannsóknarskýrslunni. Við erum öll sammála um að það er ýmislegt varðandi rekstur Íbúðalánasjóðs sem hefði mátt betur fara og hefði mátt haga á annan hátt, líkt og hv. þingmaður rakti. En miðað þá miklu gagnrýni sem kom fram á störf rannsóknarnefndarinnar langar mig að spyrja hv. þingmann hvort stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi kallað rannsóknarnefndina til sín og innt hana eftir viðbrögðum við þeirri miklu gagnrýni sem kemur fram hjá hv. þingmanni.

Svo langar mig að spyrja hv. þingmann, vegna þess að ég þykist vita að hann hafi skoðun á því, um framtíð Íbúðalánasjóðs. Við höfum séð það í gegnum tíðina, bæði nú um stundir og áður, að það eru öfl í samfélaginu sem vilja leggja niður Íbúðalánasjóð. Hann gegnir auðvitað gríðarlega miklu félagslegu hlutverki og landsbyggðarhlutverki. Hann hefur gegnt gríðarlega mikilvægu hlutverki á landsbyggðinni. Treystir hv. þingmaður bönkunum og einkamarkaðnum til þess að sinna hinu félagslega hlutverki og landsbyggðarhlutverkinu? Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér framtíð Íbúðalánasjóðs hvað varðar að uppfylla (Forseti hringir.) félagslegu gildin og landsbyggðargildin?