143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[11:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil helst einskorða mig við það í þessum hluta umræðunnar að gera grein fyrir áliti meiri hlutans, en þar geri ég ráð fyrir að við séum ekki öll á sama máli hvað varðar framtíð íbúðalánasjóðskerfisins. Ég get þó upplýst að ég vil styrkja félagslega þætti í húsnæðiskerfinu enn betur en þeir eru tryggðir nú í gegnum Íbúðalánasjóð. Ég vil þó ekki um leið veikja sjóðinn sem slíkan og get gert grein fyrir þeim sjónarmiðum.

Við hins vegar tókum þá ákvörðun, og það er í samræmi við lögin sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd starfar samkvæmt, að hafa engar skoðanir á stefnunni í húsnæðismálum, hvaða póll skuli tekinn. En ég vakti athygli á því í upphafi máls míns að rannsóknarnefndin gerir þetta, hún segir t.d. í inngangi sínum, með leyfi forseta:

„Hvaðanæva má heyra ákall um endurskoðun á stöðu og hlutverki Íbúðalánasjóðs og áminningu um hið brýna hagsmunamál fólks að búa við öruggt og gott húsnæði sem það ræður við.“

Það er alveg rétt. Við viljum hafa traust og gott húsnæðiskerfi. En það kom líka fram hjá nefndinni þegar hún kom fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, og kemur fram og er rauður þráður í rannsóknarskýrslunni, að hún taldi að lánveitingar ættu að uppistöðu til að fara til fjármálakerfisins. Það var rauður þráður í þessari rannsóknarskýrslu. Ég ítreka það (Forseti hringir.) að ég vil styrkja félagslega þætti húsnæðiskerfisins og það er mikið verk að vinna í því efni.