143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[11:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður segir að skýrslan og þessi vinna sé áfellisdómur yfir þeim sem að málinu stóðu. Hverjir voru það? Það vorum við, það var Alþingi. Ég leyfi mér að fullyrða að það hafi ekki verið annað en góður hugur þar að baki og ég efast ekki um að þeir sem hafa unnið rannsóknarskýrsluna hafi einnig viljað skila góðu verki, það hygg ég.

Við gagnrýnum síðan ýmsa þætti í rannsóknarskýrslunni. Við höfum áhyggjur af þeim miklu fjárútlátum sem þetta hafði í för með sér. En ég legg áherslu á að við látum þetta verða til þess að móta hefð inn í framtíðina sem styrkir Alþingi í eftirlitshlutverki sínu. Það er það sem mér er efst í huga núna. Þess vegna þurfum við ekki að láta okkar verki lokið í dag, við þurfum að vanda til þessarar umræðu allrar, líka í dag (Forseti hringir.) þegar við fjöllum um álit meiri hluta og minni hluta.