143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[11:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka fram að ég skrifa ekki upp á að hér hafi verið gerð stórkostleg pólitísk mistök á árunum 2003–2004 með innleiðingu 90% lána, alls ekki. Ég hef gert grein fyrir því hvers vegna ekki. Mér þótti það, og þykir enn, vera mjög eftirsóknarverður þáttur. Mistökin eru gerð hjá fjármálakerfinu sem ætlaði að reyna að ryðja Íbúðalánasjóði út af markaði. Ég man þá atburðarás mjög vel og tók þátt í umræðu um þau mál þannig að ég skrifa ekki upp á að Íbúðalánasjóður sé þensluvaldurinn. Það er fjármálakerfið sem brást, það var fjármálakerfið sem ætlaði sér um of og það var fjármálakerfið sem hrundi og tók drjúgan hluta af íslensku samfélagi með í fallinu.

Varðandi hinn félagslega þátt íbúðakerfisins tek ég undir að gerð voru mistök við breytingu á húsnæðiskerfinu undir aldalok þegar verkamannabústaðir voru lagðir af og það líka skert á annan hátt. Þetta átti sér langan aðdraganda. Í upphafi 10. áratugarins voru vextir á lánum til verkamannabústaða 1%. Í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks á fyrri hluta áratugarins voru þeir hækkaðir upp í 2,5% og síðan meira og farið að þrengja að þessum félagslega þætti. Síðan var farið út á þá braut að búa til einn íbúðalánasjóð og hinn félagslegi þáttur þar er að tryggja jafnræði á milli fólks hvar sem það býr í landinu. Það er hinn félagslegi þáttur þessa kerfis.

Félagslegi þátturinn er líka í vaxtabótakerfinu. Þar kemur tekjutengdur stuðningur til sögunnar og í húsaleigubótum og öðru slíku. (Forseti hringir.) Ég tek undir með hv. þingmanni að við þurfum að styrkja hinn félagslega þátt íbúðakerfisins en það gerum við ekki að mínu mati, og þá tala ég fyrir mig, með því að fórna Íbúðalánasjóði.