143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[11:58]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um rannsóknarskýrslu um Íbúðalánasjóð. Ég mun ekki lesa nefndarálitið upp frá upphafi til enda heldur vitna beint í það á nokkrum stöðum en reyni annars að ræða málið eins og það blasir við mér.

Mér finnst að það hafi verið nokkur lenska undanfarið að reyna að gera sem minnst úr þeim veilum sem voru, og eru sumar kannski margar hverjar enn, í stjórnkerfi okkar og stuðluðu með öðru að því að efnahagskerfið fór hér á hliðina með öllum þeim afleiðingum sem við þekkjum. Við höfum skipað rannsóknarnefndir og sumir vilja fremur beina sjónum sínum að þeim kostnaði sem orðið hefur við þær en því sem kemur fram í skýrslunum. Og það er sannarlega hætta á því að fólk verði meðvirkt í þeirri umræðu.

Mér finnst skipta máli að við höldum vöku okkar og horfum gagnrýnum augum til fortíðarinnar og reynum að læra af henni í stað þess að líta á gagnrýnina sem persónulegar árásir á þá sem voru við völd eða stjórnuðu þeim stofnunum sem til skoðunar eru hverju sinni. Og þar kemur kannski fram mismunur í orðanotkun, sumir segja að menn séu bornir sökum, ég segi að þeir hafi verið gagnrýndir.

Umræðan í dag er um skýrslu rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóð sem samþykkt var að setja á með þingsályktun þann 17. desember 2010. Skýrslan er gífurlega viðamikil og þess er enginn kostur að fara yfir öll atriði í henni en í nefndarálitum okkar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er farið yfir þau atriði sem helst voru reifuð í meðferð nefndarinnar.

Ráðstafanir stjórnvalda er varða stefnu í húsnæðismálum á árunum 2003 og 2004 og viðbrögð bankanna við þeim og síðan aftur viðbrögð Íbúðalánasjóðs við þeim hafa orðið þjóðfélaginu dýr. Því verður ekki á móti mælt.

Ef ég ætti í sem stystu máli að lýsa því að hvaða niðurstöðu ég hef komist við lestur og umfjöllun um þessa óskemmtilegu skýrslu þá er það fyrst eitt orð, óvarkárni, eða ætti ég að segja áhættusækni. Og til að setja aðeins kjöt á þau bein virðist vera að ef fólk hafi haft um einhverja kosti að velja hafi það alltaf valið þann kostinn sem bar með sér meiri áhættu. Því miður, virðulegi forseti, hallaði alltaf á ógæfuhliðina, þ.e. áhættan færði okkur alltaf meira tap en aldrei meiri hagnað. Þegar ég er að tala um þetta núna er ég að tala um ríkið, ég er að tala um almannahagsmuni, ég er að tala um meðferð á opinberu fé.

Ef svörtustu spár rætast gæti uppsafnað heildartap bókfært og óbókfært numið allt að 270 milljörðum kr. segir í skýrslu rannsóknarnefndar. — Ég vitna til álitsins, en þar segir, með leyfi forseta:

„Rannsóknarnefndin tekur fram að „[o]rðið tap hefur a.m.k. tvær nátengdar merkingar. Annars vegar þýðir það hvers konar fjárhagslegt tjón og hins vegar neikvæða rekstrarafkomu fyrirtækis eða stofnunar, þ.e. þegar gjöld eru hærri en tekjur.“ Þá tekur hún það fram að orðið tap sé notað „í fyrrgreindri merkingu, þ.e. hvers konar fjárhagslegt tjón, en orðið rekstrartap notað yfir hið síðarnefnda.““

Þegar rannsóknarnefndin setur upp þennan ramma og talar um að tap geti orðið 270 milljarðar þá er hún að tala um hvers konar fjárhagslegt tjón og vissulega er það ekki tjón sem er fært inn í rekstrarreikninga, efnahagsreikninga eða ársskýrslur fyrirtækja, en það sýnir hins vegar stærðargráðuna og það er alveg útskýrt í skýrslunni hvernig komist er að því. En ég segi: Vonandi og örugglega — eða eins og kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans er mjög ólíklegt að hún nái þeim upphæðum, þessum 270 milljörðum. En á hinn bóginn er ljóst að tapið verður hátt á annað hundrað milljarðar og það er heilmikið fé. Ein milljón gæti farið allt upp í 2 milljónir á hvert heimili í landinu. Ekki má gera lítið úr því og horfa fram hjá því, en það er alla vega ekki á færi minni hlutans í nefndinni að meta hversu líklegt eða ólíklegt það er hve mikið tapið verður, en mikið verður það.

Íbúðalánasjóður, segi ég aftur, er rekinn með ríkisábyrgð. Þess vegna mun allt það tap sem verður, og auðvitað hljótum við öll að vona að það verði sem minnst, leggjast á heimilin í landinu.

Rannsóknarnefndin er mjög gagnrýnin á störf stjórnar og stjórnenda Íbúðalánasjóðs og telur að starfshættir stjórnarinnar hafi einkennst af illa skilgreindu hlutverki hennar og of víðu verksviði, svo og ónógri þekkingu stjórnarmanna á starfsemi sjóðsins sem útlánastofnunar. Einnig er gagnrýnt að stjórnin hafi ekki tryggt innleiðingu innri endurskoðunar og ýmislegt annað er tínt til, t.d. að stjórnin hafi ekki sett sér starfsreglur jafnvel þó stjórnin hafi verið óbreytt um árabil.

Jafnframt er bent á að stjórnin hafi fyrst og fremst beint sjónum sínum að smámálum en ekki hinum stóru málum er vörðuðu stjórn sjóðsins. Vissulega væri þægilegast gagnvart því fólki sem starfaði að þessu máli á sínum tíma að vísa flestu þessu á bug en þá tel ég að við værum ekki að gera skyldu okkar. Gagnrýnin á því miður rétt á sér og minni hlutinn tekur undir hana. Því miður var fleiru ábótavant í þessum efnum en skortur á formfestu eða skortur á verkferlum. Það var fleira sem var að, því miður.

Hvað varðar stefnuna í húsnæðismálum og stjórnsýslulega stöðu Íbúðalánasjóðs var hvort tveggja óljóst og þá er fyrst og fremst við stjórnmálamenn að sakast. Í áliti meiri hluta segir, með leyfi forseta, að það hafi verið „skýr stefna stjórnvalda og stjórnmálanna að reka félagslegan Íbúðalánasjóð sem veitti lán á grundvelli almennra skilyrða með jafnræði í huga, auka aðgengi almennings að lánsfé til húsnæðiskaupa og stuðla að lægri vöxtum.“

Virðulegi forseti. Mér virðist það alveg kýrskýrt að ef rannsóknarnefnd sem skoðar sviðið hálfum áratug eftir á metur það svo að þetta hafi ekki verið alveg skýrt þá er við stjórnmálamenn að sakast. Það er nefnilega ekki nóg að stjórnmálamenn vilji hafa hlutina einhvern veginn. Þeir verða að gera hlutina og umgjörðina þannig úr garði að ekki fari á milli mála hvernig það eigi að vera.

Hvað varðar skuldabréfaskiptin og uppgreiðsluáhættu ætla ég að taka þann kostinn að lesa upp úr nefndaráliti okkar minni hlutans orðrétt, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn tekur undir með rannsóknarnefndinni að uppgreiðsluáhættunni hafi ekki verið gefinn nægur gaumur og að óraunsætt traust hafi verið lagt á að áhættustýringarkerfi gæti leyst vandann. Einnig er tekið undir það sjónarmið rannsóknarnefndarinnar að ábyrgðin sé fyrst og fremst þingsins að samþykkja gölluð lög. Breytir þar engu um þó að um upplýsta ákvörðun hafi verið að ræða. Ljóst er að með ákvörðun um breytingu á fjármögnun húsbréfakerfis Íbúðalánasjóðs, þar sem gert var ráð fyrir að fjármögnunarbréf sjóðsins yrðu hvorki innkallanleg né að lántakar þyrftu að greiða uppgreiðslugjald, tók löggjafinn mikla áhættu.

Jafnframt er tekið undir með rannsóknarnefndinni um að samkomulag við lífeyrissjóði um að útdráttur yrði einungis gerður þannig að dregið væri úr bréfum í þeim flokki sem uppgreidd lán tilheyrðu, flokkur á móti flokki, hafi takmarkað svigrúm Íbúðalánasjóðs til að bregðast við uppgreiðslum. Vissulega kom fram á fundum nefndarinnar að fyrrum framkvæmdastjóri sjóðsins taldi þetta hafa haft óveruleg áhrif en engin gögn hafa verið lögð fram sem sýna það.

Hvað varðar skuldabréfaskiptin sjálf virðist að hin áhættusamari leið hafi verið valin, þ.e. að fara í ein stór skipti í stað fleiri minni. Hið sama gildir um val á ráðgjöf erlendra aðila en valið stóð á milli JP Morgan og Deutsche Bank og var sá valinn sem mælti með að því er virðist áhættusamari leið.

Minni hlutinn tekur ekki afstöðu til meintrar reiknivillu við ákvörðun skiptiálagsins sem hafi kostað 1,5 milljarða kr. (núvirði 3,5 milljarðar kr.)“ — þ.e. miðað við verðlag árið 2012 — „en þar virðist standa orð á móti orði rannsóknarnefndarinnar og fyrrverandi stjórnenda Íbúðalánasjóðs og Deutsche Bank.“

Í áliti minni hlutans kemur fram að við teljum auðvitað ekki að loforðið um hækkun lána Íbúðalánasjóðs hafi valdið þeirri miklu verðsprengju sem varð á íbúðamarkaði eða valdið bankahruninu en hins vegar held ég að ljóst sé að loforðið hafði áhrif á hegðun bankanna og útrás þeirra á þann markað og viðbrögð Íbúðalánasjóðs við þeirri útrás urðu ekki til þess að ró færðist yfir.

Hvað varðar viðbrögð Íbúðalánasjóðs við samkeppninni frá bönkunum telur minni hlutinn engan vafa leika á að varhugavert var að halda áfram útgáfu íbúðabréfa þegar uppgreiðslur streymdu inn í Íbúðalánasjóð og var það eins og í mörgum ákvörðunum sem teknar voru á þeim tíma enn til að auka á áhættu með almannafé.

Þá telur minni hlutinn ljóst að þó svo að Íbúðalánasjóður hafi reynt að bregðast við ástandinu notaði hann ekki ákjósanlegustu leiðina sem var að kaupa eigin bréf. Bendir þetta enn fremur til þess að Íbúðalánasjóður hafi lagt ríka áherslu á að reyna að halda markaðshlutdeild sinni og þar með auka áhættu ríkissjóðs.

Rannsóknarnefndin telur að Íbúðalánasjóður hafi með lánasamningum við banka og sparisjóði tekið óþarfaáhættu og að sjóðurinn hafi með þeim fjárveitingum fjármagnað lánveitingar bankanna til einstaklinga sem hafi aukið enn meira á þenslu. Minni hlutinn tekur undir þetta. Einnig leikur vafi á hvort sjóðurinn hafi farið á svig við lög og eigin reglur með þeim samningum. Þessar lánveitingar eru vissulega ekki stór hluti af þeirri þenslu sem varð á markaðnum á þeim tíma. Það afsakar þó ekki gjörninginn enda hefði sjóður í eigu ríkisins átt að gæta varúðar fremur en taka þátt í dansinum. Því mætti segja að verðbólan á fasteignamarkaði hafi að hluta til verið fjármögnuð af Íbúðalánasjóði með ábyrgð ríkisins — að hluta til.

Rannsóknarnefndin gagnrýnir vinnubrögð Íbúðalánasjóðs hvað varðar áhættustýringu og telur þekkingu og skilningi starfsmanna sjóðsins hafa verið ábótavant. Við í minni hlutanum tökum undir það. Vissulega höfðu þeir einhverja ráðgjafa en ekki verður ályktað af viðtölum við þá að áhættustýringin hafi ekki verið í molum.

Minni hlutinn tekur, líkt og meiri hlutinn, undir þá gagnrýni og áréttar að ekki hafi verið nægilega strangar reglur um mat á greiðslugetu og áreiðanleika útlána til lögaðila og að eftirlit stjórnar sjóðsins með lánveitingum og lögaðilum hafi ekki verið fullnægjandi.

Þá telur minni hlutinn að hafi stjórnendur sjóðsins haft áhyggjur af framvindu mála varðandi lánveitingar til leiguíbúða hafi þeim borið skylda til að vekja á því athygli og koma viðvörunarorðum til þess ráðherra sem ábyrgð ber á málaflokknum. Minni hlutinn telur einnig, líkt og meiri hlutinn, að löggjafinn hefði mátt grípa fyrr inn í með setningu laga um ríkari skilyrði lánveitinga til leigufélaga.

Virðulegi forseti. Ekki er alltaf nóg að segja að farið sé að lögum eða að lög séu ekki brotin, það þarf að huga að því hvaða áhrif það hefur að fara að lögum. Einhvern heyrði ég segja eða ég rakst á það einhvers staðar nýlega að þetta væri munurinn á því að líta á lög rómverskum eða grískum augum.

Þá ætla ég aðeins að víkja að útboði á innheimtu og tengdri þjónustu sem fram fór árið 1999. Því miður er það landlægt hér á landi að taka lög um opinber útboð ekki mjög alvarlega. Það virðist einnig hafa átt við um Íbúðalánasjóð. Hann fór í eitt útboð þegar rétt hefði verið að fara í tvö og verkefnið var ekki nógu vel skilgreint. Það er engin afsökun í því efni að þeir sem áhuga hefðu á verkinu hefðu getað aflað sér upplýsinga.

Þá liggur ljóst fyrir að efna hefði átt til nýs útboðs eftir að samningnum við Fjárvaka hafði verið rift og breytir engu í því efni að líklegt hafi verið að sjóðurinn hefði þurft að semja við sparisjóð vegna þess að bankarnir hefðu ekki haft áhuga á að gera slíkan samning við sjóðinn.

Minni hlutinn tekur undir gagnrýni rannsóknarnefndarinnar á samning við Sparisjóð Hólahrepps um ávöxtun 300 millj. kr. öryggissjóðs Íbúðalánasjóðs og telur það ekki til málsbóta að engir fjármunir hafi tapast.

Minni hlutinn telur einnig varasamt að vísa alveg frá gagnrýni um samninga um hlutdeild Fjárvaka í ávinningi sparisjóðsins af samningi við Íbúðalánasjóð, líkt og meiri hlutinn gerir, á þeirri forsendu að þetta málefni heyri „því fremur undir rannsókn á sparisjóðunum“.

Rannsóknarnefndin gagnrýnir þá sem hafa áttu eftirlit með Íbúðalánasjóði, þ.e. Alþingi, félagsmálaráðuneyti, Fjármálaeftirlitið, Seðlabankann og Ríkisendurskoðun.

Minni hlutinn tekur undir með meiri hlutanum að það er álitamál, nánar tiltekið pólitískt álitamál, að hve miklu leyti rétt er að löggjafinn afsali sér völdum til framkvæmdarvaldsins, í þessu tilfelli tilnefningu í stjórn Íbúðalánasjóðs. Sá háttur hefur mjög verið hafður á undanfarin ár og við getum velt fyrir okkur hvort rétt var að gera þetta að á sínum tíma eða hvort rétt væri að breyta þessu aftur.

Minni hlutinn telur nauðsynlegt að Alþingi nýti þau verkfæri sem það hefur til að sinna eftirlitshlutverki sínu en telur ekki ástæðu til að tíunda í þessu áliti hvað nákvæmlega var gert enda erfitt eftir á, held ég, að meta hvort nógu vel hafi verið að verki staðið. En það er alveg ljóst að heilmikið var af fyrirspurnum en hvort það var nóg treystir minni hlutinn sér ekki að taka afstöðu til.

Líkt og meiri hlutinn tekur minni hlutinn undir með rannsóknarnefndinni að vanda þurfi lagasetningu og áréttar mikilvægi þess að þingmönnum gefist gott ráðrúm til að taka lagafrumvörp til faglegrar skoðunar, upplýstrar málefnalegrar umræðu og afgreiðslu. Minni hlutinn getur þó ekki tekið undir þá skoðun meiri hlutans að afstaða rannsóknarnefndarinnar til vinnubragða Alþingis á þessum tíma skýrist af því að rannsóknarnefndin sé ekki sammála þeirri meginstefnu í húsnæðismálum sem mótuð var á Alþingi á sínum tíma.

Minni hlutinn telur sig ekki hafa forsendur til að meta réttmæti gagnrýni rannsóknarnefndarinnar þess efnis að sérfræðiþekkingu hafi skort í félagsmálaráðuneyti umfram það sem fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Við teljum okkur ekki hafa forsendur til að segja af eða á um það eða bera það til baka. Minni hlutinn telur það hins vegar ekki málsbætandi fyrir stjórnvöld, líkt og skilja má af áliti meiri hlutans, að gagnrýni rannsóknarnefndarinnar byggist á pólitískri afstöðu nefndarinnar.

Mig langar aðeins að nefna eitt að lokum, það kemur reyndar ekki fram í nefndarálitinu en ég vil bæta því hérna við, en það er vegna umfjöllunar um einstaklinga. Það er hárrétt sem kemur fram í áliti meiri hlutans og kom mjög skýrt fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar áðan að auðvitað má ekki dæma fólk fyrir pólitískar skoðanir sínar og fólk má ekki gjalda fyrir pólitískar skoðanir sínar. En ekki er hægt að horfa fram hjá því að pólitísk tengsl og pólitískar ráðningar hafa lengi viðgengist í stjórnmálum. Þann sið þarf að uppræta og ráða fólk til starfa á grundvelli hæfileika þess og menntunar en ekki stjórnmálaskoðunar, tengsla, vensla eða skyldleika við ráðamenn. Sú lenska verður ekki upprætt nema viðurkennt sé að hún tíðkist. Menn mega þá heldur ekki gjalda fyrir stjórnmálaskoðanir sínar eða tengsl eða skyldleika við ráðamenn.

Ég tel rétt að nefna það að vissulega var mikið fjallað um þetta í nefndinni. Okkur telst til að nefndin hafi fundað í um 20 tíma og auðvitað fór mikill tími hjá einstökum nefndarmönnum í að kynna sér málin þannig að mikill tími hefur farið í þetta starf.

Aðeins varðandi rannsóknarnefndir og samstarf við þingið. Ég vil segja eitt, og þá segi ég það frá eigin brjósti, að það að rannsóknarnefndir séu sjálfstæðar þýðir ekki það að skrúfað sé frá krana og þær geti fengið alla þá fjármuni sem þær þurfa. Sjálfstæði þýðir ekki það að einhver megi ekki hafa skoðun á því hvað verið er að gera. Sjálfstæði þýðir það að þú átt ekki að vera með puttana í verkefninu sjálfu en þú getur búið því umgjörð. Ég get alveg tekið undir að ef eitthvað er þá get ég bara lagt þá gagnrýni fram sjálf. Ég tel að yfirstjórn þingsins hefði átt að hafa afskipti af því hvernig þetta verkefni um Íbúðalánasjóð þandist út og eins hvernig virðist vera líka með sparisjóðaskýrsluna sem ekki er enn komin.

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir að hafa fengið auka tíu mínútur til að tala. Mér sýnist ég vera búin með fimm mínútur af þessum auka tíu mínútum og ætla bara að eiga hinar fimm mínúturnar inni þangað til einhvern tíma síðar. Ég hef lokið máli mínu.