143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[12:46]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður hefur eitthvað misskilið ræðu mína og kannski hef ég ekki verið nægilega skýrmælt. Það sem ég átti við var að það væri einföldun að kenna eingöngu fjármálafyrirtækjunum um og segja þau ábyrg fyrir ástandinu hjá Íbúðalánasjóði. Margir bera ábyrgð, bæði þeir sem smíðuðu reglurnar í kringum Íbúðalánasjóð, væntanlega þá þingmenn, stjórnmálamennirnir, og þeir sem áttu þátt í að skapa þessi lög í ráðuneytunum. Það var líka sofandaháttur fjölmiðla sem og hjá hinu akademíska samfélagi. Það sem ég átti við er að það er margþætt af hverju fór sem fór.

Að sjálfsögðu kemur bankahrunið ekki úr einhverju tómarúmi. Það er aðdragandi að því og það er það sem við erum væntanlega að skoða. Hver ber ábyrgð á aðdragandanum? Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að vitanlega er það kerfið sem hér er smíðað, það að heimila að sjóður sem er rekinn á ríkisábyrgðum fari út í áhættusækið umhverfi. Ég er alveg sammála því, það hefur verið einhver minni háttar misskilningur og ég hef væntanlega ekki verið nægilega skýr.

Ég átti bara við að í orðum hv. formanns nefndarinnar verður svolítið einhlítt hver ber ábyrgð. Ég held að ábyrgðin liggi hjá mörgum alveg eins og alltaf er og þess vegna kalla ég eftir því að við horfum á það hvar ábyrgðin liggur til þess að við getum væntanlega komið með tillögur að betra starfsumhverfi fyrir þá sem eru að lána almenningi fé til húsnæðiskaupa, hvort sem það er með ríkisábyrgð eða ekki.