143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skatttekjur af hverjum ferðamanni og þróun rekstrarumhverfis ferðamannaiðnaðarins.

[13:32]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í þeirri sérstöku umræðu sem nú er að hefjast ræðum við mjög mikilvægt og aðkallandi mál sem er skatttekjur af hverjum ferðamanni og þróun rekstrarumhverfis ferðamannaiðnaðarins. Ferðaþjónustan hefur vaxið svo mikið á undanförnum áratug að hún skilar nú meiri gjaldeyristekjum en sjávarútvegurinn.

Hún er á örstuttum tíma orðin ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar. Það hlýtur að vera forgangsverkefni stjórnvalda að setja fram stefnu um hvernig hagkvæmast er að ferðaþjónustan þróist til framtíðar, meta kostnað við ágang ferðamanna á fjölförnum stöðum og hvað teljast megi æskilegt rekstrarumhverfi atvinnugreinar sem slitið hefur barnsskónum.

Greina þarf hvar vaxtarsprotar eru sem hlúa þarf að sérstaklega með opinberum stuðningi og einnig hvaða þættir eru nú þegar orðnir það burðugir innan greinarinnar að þeir beri greiðslur til samfélagsins sambærilega við önnur fyrirtæki í landinu. Horfa þarf til framtíðar í þessari atvinnugrein sem öðrum og þótt fyrr hefði verið.

Í svari hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra við spurningum sem ég lagði fyrir hann á yfirstandandi þingi kemur fram að frá árinu 2002 til ársins 2012 hafði erlendum ferðamönnum fjölgað um rúm 140%, þ.e. úr 278 þúsundum í 673 þúsund. Í nýlegum áætlunum er gert ráð fyrir að ferðamenn verði 1 milljón talsins hér á landi á næsta ári.

Í svari hæstv. ráðherra kemur einnig fram að á sama tíma og ferðamönnum fjölgar svo stórkostlega lækka skatttekjur af hverjum og einum þeirra einnig stórkostlega á þessu tíu ára tímabili, þ.e. um 46% á verðlagi ársins 2013.

Stærsta stökkið niður á við í tekjum varð við breytingu á virðisaukaskatti á hótel og gistiheimili úr 14% í 7% á árinu 2007. Þá lækkaði neysluskatturinn sem þeir greiða sem nýta sér þjónustuna en einnig varð munur á inn- og útskatti hótela og gistiheimila það mikill að ríkið hefur endurgreitt mismun svo hundruðum milljóna skiptir á hverju ári frá breytingunni.

Svo lágur neysluskattur er hugsanlega réttlætanleg ívilnun þegar grein er veikburða en að mínu mati er hún það engan veginn við slíkan vöxt sem nú er. Hótelbyggingar rísa úti um allt land og ýmis önnur þjónusta við ferðamenn er í örum vexti. Greininni er leyft að vaxa með byltingarkenndum hætti við óeðlilegt rekstrarumhverfi. Við Íslendingar höfum reynslu af því að hvetja til of mikilla fjárfestinga með ívilnunum í atvinnugreinum sem ekki hafa spjarað sig eins og til stóð. Dæmi sem koma upp í hugann eru tengd fiskeldi og loðdýrarækt.

Við höfum líka nýlega reynslu af því að atvinnugrein óx okkur langt yfir höfuð þannig að við réðum ekki neitt við neitt. Þótt dæmin sem ég nefni hér séu ekki að fullu sambærileg við öran vöxt ferðaþjónustunnar er þetta dæmi sem ætti að kenna okkur að það sem gera þarf í stöðunni er að skipuleggja þróunina, marka leiðina og skapa greininni góð og almenn rekstrarskilyrði eins og kostur er þannig að hún skili líka verðmætum til samfélagsins.

Annað umhugsunarefni þegar atvinnugrein vex við þær aðstæður sem ferðamannaiðnaðurinn gerir, er skökk samkeppnisstaða greinarinnar við aðrar atvinnugreinar sem ekki fá undanþágur. Samsetning atvinnutækifæra á landinu öllu og tekjumöguleikar einstaklinga verða einnig að vera undir við gerð atvinnustefnu þjóðar.

Ljóst er að styrkja þarf innviði á fjölförnum ferðamannastöðum og á friðlýstum svæðum. Ef það verður ekki gert glata þeir aðdráttarafli sínu — og hvað ætlum við þá að selja erlendum ferðamönnum sem laðar þá til landsins? Í ár er gert ráð fyrir niðurskurði á þeim fjármunum sem settir voru í uppbyggingu innviða og áætlanir fyrri ríkisstjórnar um uppbyggingu voru slegnar af.

Ný umdeild skattheimta er hins vegar boðuð þar sem rukka á alla, líka Íslendinga. Er einhver skynsemi í því ástandi sem stjórnvöld virðast vilja viðhalda, að erlendur ferðamaður sem sækir Ísland heim fái afslátt af almennum virðisaukaskatti þegar hann gerir upp hótelherbergið sitt og þegar hann svo greiðir fyrir bílaleigubíl fái hann svo aftur afslátt af vörugjöldum, þeim sem íslensk heimili þurfa að greiða að fullu? Til að ná þessum ríkisstyrkjum til baka á svo að setja upp nýtt skattheimtukerfi og rukka þar með alla Íslendinga í leiðinni.

Virðulegi forseti. Ég vona að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra komi í máli sínu hér á eftir inn á skýringar og þróun skatttekna af hverjum ferðamanni síðustu tíu ára, þá neysluskatta sem ferðamenn greiða, kostnað þann sem fylgir fjölda ferðamanna og framtíðarsýn hæstv. ráðherra um rekstrarumhverfi ferðaþjónustu og þróun atvinnugreinarinnar.