143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skatttekjur af hverjum ferðamanni og þróun rekstrarumhverfis ferðamannaiðnaðarins.

[13:43]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þær tölur sem fram koma í svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn hv. málshefjanda eru mjög sláandi. Ég varð satt best að segja hugsi þegar ég fékk þær í hendur og hafði þó tilfinningu fyrir því að þróunin hefði verið eitthvað í þessa áttina, en þetta er meira tekjuhrap á hvern ferðamann en ég hafði gert mér almennilega grein fyrir. Það færir okkur heim sanninn um það, sem er svo sem ekki ný speki, að fjöldi ferðamanna er ekki allt í þessum efnum.

Við Íslendingar höfum kannski verið fullsofandi gagnvart því að fara að horfa meira á samsetningu þeirra ferðamanna sem koma til landsins, hvenær þeir koma, til hve langra ferða o.s.frv. Hvað þeir eru tilbúnir að fara djúpt í budduna er að sjálfsögðu líka mikilvægt mál.

Án þess að ég ætli, sem sjálfur hef flækst á puttanum, bláfátækur og skítblankur um heiminn, að fara að leggjast gegn því að slíkir komi hingað eins og aðrir ferðamenn — þetta snýst auðvitað ekki um það, en við getum haft talsverð áhrif á það í gegnum það hvernig við markaðssetjum landið og hvaða þjónustu við bjóðum að hér verði sem mestar tekjur eftir. Það má jafnvel velta því fyrir sér hvort við séum hreinlega að verðleggja okkur of ódýrt eftir að gengi krónunnar féll jafn mikið og raun ber vitni.

Skattumhverfið skiptir svo miklu máli. Mér finnast þessar tölur svo sláandi hvað varðar þá dæmalausu ráðstöfun á sínum tíma, 2007, að lækka skattinn á ferðaþjónustuna úr 14% niður í 7% að við hljótum að geta sest aftur yfir það hvað sem fortíðinni líður. Ferðaþjónustan er orðin nr. 1 sem gjaldeyrisaflandi þjóðarinnar og verður auðvitað að leggja sitt af mörkum og vera í einhverju sambærilegu skattumhverfi og annað atvinnulíf.

Ég tel að hæstv. núverandi ríkisstjórn eigi sjálf að hafa áhyggjur af því hvernig hún hefur farið af stað í þessum efnum með skertar fjárveitingar til Framkvæmdasjóðs (Forseti hringir.) ferðamannastaða með því að draga úr fjárframlögum til markaðssóknar í ferðamálum og það sé ekki sá uppbyggingarsóknarandi í þessum efnum sem við þyrftum á að halda.