143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skatttekjur af hverjum ferðamanni og þróun rekstrarumhverfis ferðamannaiðnaðarins.

[13:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er ekkert hrifinn af sköttum. Þeir geta auðveldlega hindrað vöxt greina en ferðamannaiðnaðurinn vex enn þá og reyndar hraðar en okkur er hollt án mótaðgerða til verndar landi og náttúru.

Það eru mörg vandamál á Íslandi en niðursveifla eða skortur á eftirspurn er lengra frá því að vera vandamál í ferðamannaiðnaðinum en í nokkurri annarri grein. Ég fagna því orðum hæstv. fjármálaráðherra þess efnis að hann telji hægt að beita virðisaukaskattskerfinu til mótvægis við það að við fáum minni tekjur af hverjum ferðamanni en áður. Það er vissulega nokkuð sem við þurfum að líta vandlega á, eins og hefur komið fram hjá þeim hv. ræðumönnum sem hér stóðu áður.

Eins og ég sagði í upphafi er ég ekki hrifnari af sköttum en hver annar, en ég get ekki ímyndað mér betri aðstæður til að skattleggja en akkúrat núna gagnvart ferðamannaiðnaðinum. Hann er í þeirri stöðu að ef einhvern tímann er ástæða til að skattleggja er það nú.