143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skatttekjur af hverjum ferðamanni og þróun rekstrarumhverfis ferðamannaiðnaðarins.

[13:54]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa sérstöku umræðu en ég vil í upphafi aðeins staldra við tvær spurningar sem maður veltir fyrir sér þegar maður er að ræða um minnkandi tekjur af ferðamönnum. Í fyrsta lagi höfum við ekki í höndunum neinar sérstakar greiningar á því hverjar ástæðurnar gætu verið. Mér dettur til dæmis í hug breytt framboð á vörum ferðaþjónustuaðila og breyting á samsetningu ferðamanna, það hefur fjölgað í þeim hópi sem kaupir lágmarksþjónustu og ferðast um landið með lágmarkstilkostnaði.

Þessar greiningar höfum við ekki við höndina. Hins vegar kemur fram í svari hæstv. fjármálaráðherra við fyrirspurn hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur að skatttekjur hafa lækkað á undanförnum árum og nemi um 21 milljarði eins og þar segir, þ.e. maður getur lesið það út úr gögnunum.

Síðasta sumar kom Ferðamálastofa með upplýsingar um úttekt sem verkfræðistofa hafði unnið fyrir Ferðamálastofu sumarið 2013 og þar voru áætlaðar skatttekjur af ferðamönnum tæpir 30 milljarðar. Á þessu er nokkur munur og þar fyrir utan eru tekjur af alls kyns sérgjöldum, vörugjöldum og tollum vantaldar og eru ekki inni í þeirri skýrslu.

Okkur vantar nokkrar mikilvægar forsendur til að við getum í þessari umræðu greint hvers vegna skattheimtutekjurnar minnka og hvernig við eigum að auka þær á ný.

Ég tek undir með hæstv. fjármálaráðherra sem lýsir yfir í þessari umræðu að endurskoða þurfi skattumhverfi ferðaþjónustunnar. Ég tel það mjög mikilvægt, ekki til þess að gera hana ósamkeppnishæfari en hún er heldur til að bæta innheimtu og bæta stöðu hennar gagnvart þeim rekstri sem hún er í. Þar vil ég minna á að Samtök ferðaþjónustunnar hafa sjálf hvatt til þess og á ráðstefnu á Akureyri fyrir hálfum mánuði kom einmitt fram sú ósk ferðaþjónustuaðila að slík endurskoðun færi fram.