143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skatttekjur af hverjum ferðamanni og þróun rekstrarumhverfis ferðamannaiðnaðarins.

[13:57]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, fyrir frumkvæði að þessari mikilvægu umræðu. Það er stórt áhyggjuefni að um leið og ferðamönnum sem koma til landsins fjölgar skuli skatttekjur af hverjum ferðamanni jafnframt minnka umtalsvert. Ég held að engum dyljist að okkur veitir ekkert af þessum skatttekjum, þótt ekki sé nema til að nota þær til að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða svo ekki sé talað um aukið álag á ýmsa aðra innviði, svo sem heilbrigðisstofnanir og björgunarsveitir vegna aukins ferðamannafjölda.

Allir sem eitthvað hafa fylgst með fréttum vita að þetta stefnir í algjört óefni og er raunar nú þegar komið í algjört óefni. Fleiri ferðamenn koma en minni úrræði eru til að hlúa að vörunni sem við ætlum að selja þeim, landinu sjálfu.

Þetta getur ekki verið fýsileg framtíðarsýn fyrir rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar og það getur ekki verið fýsileg framtíðarsýn fyrir okkur sem ætlum að byggja þetta samfélag eða þetta land. Ferðamannaiðnaður sem gengur nærri náttúrunni og veldur jafnvel óafturkræfum spjöllum á henni getur ekki talist sjálfbær atvinnugrein.

Oft er vísað til ferðaþjónustu sem mikilvægs vaxtarsprota í íslensku atvinnulífi en við eigum að gera kröfur til þessarar atvinnugreinar eins og annarra greina, þar með talið að þær skili sínu til reksturs samfélagsins í formi skatta. Meðal annars þess vegna held ég að það hafi verið mikið feilspor að falla frá hækkun á virðisaukaskatti á gistingu.