143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skatttekjur af hverjum ferðamanni og þróun rekstrarumhverfis ferðamannaiðnaðarins.

[13:59]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu. Mér finnst hún mjög mikilvæg og mér finnst mikilvægt að við ræðum meira þá hagstærð hverju atvinnurekstur í landinu skilar í sameiginlega sjóði á Íslandi, atvinnurekstur sem byggir oft og tíðum á nýtingu takmarkaðra og sameiginlegra gæða. Um það snýst þessi umræða. Við í Bjartri framtíð erum engir sérstakir talsmenn hárrar skattlagningar en við höfum þá trú að það sé til nokkuð sem heitir réttlát skattlagning og réttlát gjaldtaka. Þar er einfaldlega pottur brotinn þegar kemur að ferðamennskunni, sýnist mér.

Ferðamennskan byggir á eftirspurn útlendinga eftir því að koma til Íslands og njóta náttúrunnar. Hún er gæði sem við höfum upp á að bjóða. Það á einfaldlega að vera eðlileg markaðshyggja að fólk þurfi að borga með einum eða öðrum hætti í sameiginlega sjóði til að nýta þessi gæði og njóta þeirra. Við erum of feimin við þetta og ekki bara í ferðamennskunni heldur líka þegar kemur að nýtingu annarra auðlinda á Íslandi.

Virðisaukaskattskerfið er illa hannað til að taka við tekjum af þessari eftirspurn, allt of mikið er af undanþágum þannig að það er of auðvelt fyrir aðila í ferðaþjónustu og erlenda ferðamenn að borga ekki virðisaukaskatt af afþreyingu og öðru sem þeir njóta hér á landi. Þetta þarf að laga og ég fagna því að mér heyrist hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra vera mér sammála um það.

Virðisaukaskattshlutfallið á veigamiklum þáttum eins og hótelgistingu er allt of lágt, 7% er einfaldlega of lágt. Það er hægt að finna annað réttlátara og betra hlutfall.

Svo þarf að vinna gegn svartri atvinnustarfsemi, um það hljótum við hæstv. ráðherra að vera sammála. Í því sambandi þarf að búa (Forseti hringir.) til einfaldari ramma sem gerir öllum aðilum í ferðaþjónustu, smáum (Forseti hringir.) og stórum, auðveldlega kleift að greiða opinber gjöld.