143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

afnám gjaldeyrishafta og samningar við erlenda kröfuhafa gömlu bankanna.

[14:21]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Sú ræða sem hæstv. fjármálaráðherra flutti hér um afnám hafta var staðfesting á því fullkomna ráðleysi sem ríkir hjá ríkisstjórninni í þessu mikla hagsmunamáli þjóðarinnar. Það er engin ný svör að finna. Sú ríkisstjórn sem boðaði að hún hefði algerlega nýjar lausnir við að létta af höftum kemur ekki með nein ný svör. Forsætisráðherra boðaði hér fyrir septemberlok nýja áætlun um afnám gjaldeyrishafta. Ekkert nýtt er að finna í skýrslunni sem fjármálaráðherra lagði fyrir þing 17. mars um framgang áætlunar um losun fjármagnshafta. Í henni er hins vegar að finna alvarleg tíðindi. Fjármálaráðherra setur þar fram, án athugasemda, hugmyndir Seðlabankans um viðvarandi hindranir á frjálsu flæði fjármagns sem þurfi að vera við lýði eftir að höftum er aflétt.

Þær fela í sér bann við gjaldeyrislánum til óvarinna aðila, fela í sér bindisskyldu eða sérstakt gjald á fjármagn sem er í eigu erlendra aðila. Allt eru þetta hindranir á frjálsu flæði fjármagns sem standast ekki EES-samninginn að óbreyttu.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði vera heimildir í EES-samningnum til þess að grípa til tímabundinna varnaraðgerða. Það er alveg rétt. En það eru engar heimildir í samningnum til að viðhalda höftum um ófyrirséða framtíð.

Þess vegna er það svo alvarlegt að ríkisstjórnin, hafandi þessar staðreyndir fyrir framan sig, skuli ákveða á sama tíma að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið og koma þannig í veg fyrir að hin raunverulega færa leiðin, sem er upptaka evru með aðild að Evrópusambandinu, sé könnuð til hlítar. Það eru alvarleg afglöp hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar að bera ekki þær upplýsingar sem eru í skýrslunni undir Eftirlitsstofnun EFTA, bera þær undir viðsemjendur okkar á vettvangi Evrópusambandsins og spyrja: Er mögulegt að við komumst upp með að halda (Forseti hringir.) viðskiptafrelsi, aðgangi að erlendum mörkuðum og íslenskri krónu í höftum til langframa? Það hefur ríkisstjórnin ekki gert (Forseti hringir.) og þar af leiðandi hefur hún brugðist hlutverki sínu.