143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

afnám gjaldeyrishafta og samningar við erlenda kröfuhafa gömlu bankanna.

[14:28]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það sem ég held að sé mikilvægast að ræða vegna afnáms haftanna, sem er það sem allir hér í þessum sal vilja, er það sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson benti á og alþjóð veit: Höftin eru það sem truflar atvinnuuppbyggingu og efnahagsuppbyggingu á Íslandi hvað mest.

Það er gríðarlega mikilvægt að við látum ekki þetta mál, afnám hafta, verða að pólitísku bitbeini og blöndum ekki öðrum málum í það. Hér þurfum við að standa saman. En þá er líka mikilvægt, eins og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir benti á, að við fáum upplýsingar. Við í minni hlutanum verðum að vera mjög vel upplýst um þetta ferli. Þar hefur verið smábrotalöm á sem ég vona að stjórnarflokkarnir lagi þannig að við getum komið okkur saman um það hvar við stöndum, hvert við erum að fara og hvernig, þannig að við getum farið þangað saman.

Staðan eins og hún er hjá okkur í dag er sterk. Við höfum sterka stöðu. Þeir sem fara fyrir þrotabúunum vilja ekki fara gjaldþrotaleiðina en við getum þvingað það fram. Annars vegar með því að ríkið er kröfuhafi og það getur bara sagt: Ég vil fá kröfu mína borgaða. Það þýðir að það verður að slíta þessu. Hins vegar getum við farið lagaleiðina og sett sólarlagsákvæði, eins og hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson benti á, á það hversu langan tíma það má taka með slit á þrotabúum.

Við höfum sterka stöðu meðan við fylgjum íslenskum lögum og reglum sem kveða á um að við getum gert þetta og það eigi að greiða út í íslenskum krónum. Það þýðir að við fáum gjaldeyrisforða á móti. Reglurnar segja einnig að við eigum að gæta jafnræðis við allra aðila sem þýðir að við gerum ekki sérsamninga við kröfuhafa, ekki frekar en við gerum það við einstakan borgara. Og við fylgjum því líka (Forseti hringir.) að nýta markaðstækin til þess að leysa málin. Ef við fylgjum þeim reglum og stöndum saman getur alþjóðasamfélagið ekki álasað okkur (Forseti hringir.) fyrir það og staða okkar er áfram að vera sterk og við getum leyst þetta farsællega og hratt.