143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

afnám gjaldeyrishafta og samningar við erlenda kröfuhafa gömlu bankanna.

[14:33]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Það er þyngra en tárum taki að eftir 70 ára baráttu frá stríðslokum skuli Ísland sitja í gjaldeyrishöftum. Þegar styrjöld lauk var gert ráð fyrir því að þjóðir heims gætu siglt inn í skiptanleika gjaldmiðla. Það náðist með takmörkuðum hætti um 1990, en við erum aftur í sömu stöðu og eftir stríð.

Þversögnin í þessu er sú að hér inni eru eignir sem tilheyra einkageiranum og eru ekki skiptanlegar, þ.e. það er ekki til gjaldeyriseign til þess að færa út án þess að fjármálastöðugleiki sé í hættu. Það er algerlega óásættanlegt.

Ég verð að segja eins og er að það sem hér hefur verið gert hefur gengið misjafnlega og geðjast mér misjafnlega. Til dæmis fjárfestingarleiðin, sem svo er nefnd, tvöfalt gengi, hún misbýður náttúrlega fólki. Það er skráð gengi en aðilar geta komið hér inn á allt öðru gengi. Þetta gerist helst í þeim löndum sem við viljum ekki bera okkur saman við og er algjörlega óásættanlegt. Það þarf að stefna að losun fyrr eða síðar og þegar litið er til þess hvernig hún verður þarf að horfa á snjóhengjuna og vandamál ríkissjóðs svokallað, það sem stendur eftir af vaxtamunarviðskiptum. Sömuleiðis tel ég að staða lífeyrissjóða sé að verða býsna hættuleg þar sem þar safnast upp innlendar eignir.

Virðulegi forseti. Tíma mínum er lokið. Ég á mikið eftir af ræðu minni og flyt hana kannski (Forseti hringir.) síðar í öðrum þætti.