143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[14:49]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að fara yfir þau álit sem við höfum um þessa skýrslu. Ég vil byrja á að segja að það er ljóst eftir þennan lestur að Íbúðalánasjóður hefur verið orðinn afar áhættusækin fjármálastofnun frá árinu 2004.

(Forseti (ÓP): Hljóð í salnum.)

Það er ljóst að um milljarðatap er að ræða fyrir sjóðinn og þá um leið skattborgara þessa lands. Félagslegt hlutverk sjóðsins var sett til hliðar og öll stefnumótun var í lágmarki. Kapphlaupið við einkavæddu bankana réð þar fremur för að því er virðist á þessum tíma. Við skulum heldur ekki gleyma því að aðrar fjármálastofnanir máttu ekki lána út fyrir ákveðin svæði, t.d. þar sem um var að ræða viðvarandi fólksfækkun, a.m.k. ekki nema um mun lægri fjárhæðir væri að ræða. Landsmenn sátu því ekki við sama borð gagnvart bönkunum þegar þeir komu með látum inn á húsnæðismarkaðinn.

Í kjölfarið á þessu öllu eins og hér hefur verið rætt jókst uppgreiðsluáhætta sjóðsins gífurlega og stóð Íbúðalánasjóður frammi fyrir því að geta ekki greitt upp íbúðabréfin sem sjóðurinn fjármagnaði sig með. Er komið inn á þessa uppgreiðsluáhættu í báðum álitum, með mismunandi hætti þó. Minni hlutinn telur og tekur undir með rannsóknarnefndinni að uppgreiðsluáhættunni hafi ekki verið gefinn nægur gaumur og óraunsætt traust hafi verið lagt á áhættustýringarkerfi. Í meirihlutaálitinu segir hins vegar að aðvaranir hafi verið teknar til greina því að þær hafi verið ræddar á þingi og ljóst að þingmenn höfðu lagt mat á lagasetningu, umsagnir sérfræðinga og ráðgjöf og hafi því tekið upplýsta ákvörðun í málinu.

Í sjálfu sér má segja að með því að taka málið fyrir í þinginu séu stjórnmálamenn sem störfuðu í þinginu á þeim tíma ábyrgir fyrir því sem þar gerðist. Það breytir því samt ekki að þrátt fyrir að hér hafi verið samþykkt gölluð lög er vafi á því í mínum huga að tekið hafi verið að fullu tillit til þess sem kom fram um þetta, meðal annars frá Seðlabankanum.

Á árunum 2004–2008 fór Íbúðalánasjóður í mjög áhættusamar fjárfestingar og tapaði við hrunið miklum fjármunum vegna þeirrar áhættutöku með lausafé sjóðsins. Sjóðurinn slakaði á í lánsskilyrðum, hann hækkaði lánshlutfall og hætti að gera kröfu um bankaábyrgð við lánveitingar til byggingarverktaka og leigufélaga í byggingu íbúðarhúsnæðis á markaði.

Það kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið að þegar litið er á þessa ákvörðun þáverandi og núverandi stjórnarflokka sé um að ræða ein stærstu hagstjórnarmistök í aðdraganda falls bankanna, mistök sem gerð voru með fullri þekkingu á mögulegum afleiðingum. Ég tel skýrsluna um Íbúðalánasjóð vera ákveðinn áfellisdóm um pólitískar ráðningar og hagsmunatengsl við ákvarðanatöku.

Það eru pólitísk fingraför á þessu máli allan hringinn. Pólitík hefur verið viðloðandi ráðningar og þar er Íbúðalánasjóður ekki undanskilinn og engin ástæða til að gera lítið úr því þegar fjallað er um skýrsluna. Vissulega á að dæma fólk af verkum þess en þegar pólitískar ráðningar verða jafnvel án auglýsinga eða gegn mati hæfisnefndar er ekki nema eðlilegt að hafa efasemdir, samanber það sem við höfum fjallað um undanfarið hjá núverandi ráðherrum. Þá finnst manni eins og enginn lærdómur hafi verið dreginn af hruninu eða því sem fram kom hjá rannsóknarnefnd Alþingis.

Stjórnmálamenn hvers tíma bera mikla ábyrgð á því hvernig staða Íbúðalánasjóðs er, ekki síður en stjórn sjóðsins og framkvæmdastjórar þess tíma.

Svo við fjöllum aftur um það mikla verk sem skýrslan er hefur hér verið mikið rætt um kostnað og villur. Það er ekki óeðlilegt að villur séu í svo viðamiklu verki og þrátt fyrir gagnrýnina um það og kostnað held ég að við getum verið sammála um að mikill fengur er að skýrslunni. Hún inniheldur mikið magn af gagnlegum upplýsingum sem er vert að gefa gaum.

Ég held að við komum til með að draga ákveðinn lærdóm af því sem hér kemur fram. Vonandi gerum við það. En varðandi svona skýrslur yfirleitt, eins og þá sem við fjöllum um hér og væntanleg er önnur viðamikil skýrsla til þingsins, er afar nauðsynlegt að setja skýra ramma, bæði fjárhagslegan og að verkefnið sé afmarkað, bæði í tíma og efnistökum. Svo þurfum við að afmarka allt vinnulag mjög vel, meðal annars varðandi andmælarétt sem hér hefur verið fjallað um og er nauðsynlegt að mínu mati.

Það er mjög mikilvægt að við gerum greinarmun milli starfsemi Íbúðalánasjóðs og síðan þess að við, a.m.k. í Vinstri grænum, viljum ná fram ákveðnum félagslegum markmiðum með húsnæðiskerfi landsmanna. Ég hef þá trú að Íbúðalánasjóður muni áfram gegna lykilhlutverki í lánastarfsemi til húsnæðiskaupa á landsbyggðinni og sinna þar með sínu félagslega hlutverki sem honum var ætlað í upphafi. En þá þarf auðvitað eitthvað að breytast og það þarf að taka á vanda hans. Um það hvernig við ætlum að taka á því eigum við eftir að ræða síðar.

Ég get þrátt fyrir allt ekki komist að annarri niðurstöðu en að stjórnendur Íbúðalánasjóðs hafi í sjálfu sér misst tökin og misst algjörlega sjónar á grunnhlutverki sjóðsins, að búa landsmönnum öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum, og í stað þess hafi þeir farið þá leið áhættusækni á markaði sem raun ber vitni.

Ég held að verkefni okkar í framhaldinu, þegar við erum búin að fjalla um þessa skýrslu, verði að koma hér á góðu kerfi. Við þurfum að gera áhættu ríkissjóðs sem allra minnsta í því sambandi en við þurfum líka að skilgreina starfsemina sem við viljum hafa í Íbúðalánasjóði. Það þurfum við að gera í tengslum við hið nýja húsnæðiskerfi sem unnið er að. Við viljum auðvitað hafa húsnæðiskerfi sem tryggir öllum öruggt húsnæði, sérstaklega þeim sem þurfa á félagslegum stuðningi að ræða. Það er mikilvægt að við hröðum þeirri vinnu. Við þurfum að vanda okkur en við þurfum að hraða henni. Það er ekki hægt að hafa þau mál sem varða fólk á félagslegum leigumarkaði eða í leiguhúsnæði almennt í þeirri stöðu sem þau eru núna né heldur að hafa Íbúðalánasjóð í því ástandi sem hann er núna. Ég held að brýningin til okkar sé því sú að allir sem áttu hlut að máli varðandi starfsemi sjóðsins á árum áður og við sem störfum á Alþingi í dag þurfi að draga lærdóm af þeim mistökum sem klárlega voru gerð í stjórnsýslunni. Við verðum að reyna að finna leiðir til að gera sjóðinn starfhæfan út frá þeim forsendum sem við teljum heppilegar og sem ég segi að séu fyrst og fremst í þágu hins félagslega.