143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[15:01]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar um er að ræða embættismenn eða starfsmenn hins opinbera er mjög mikilvægt að þeir starfi eftir þeim lögum sem um starfsemina gilda. Þeir eiga að gera það eftir bestu samvisku og hafi þeir ekki gert það bera þeir auðvitað ábyrgð á því. En mér finnst langt seilst að saka stjórnendur og forstjóra og framkvæmdastjórn Íbúðalánasjóðs um að þeir hafi átt einhvern þátt eða jafnvel stóran þátt í því tjóni sem varð.

Ef menn ætla að saka starfsmenn um það þá krefst ég þess almennt í umræðunni, ekki bara um þetta mál heldur almennt, að menn rökstyðji það með mjög skýrum hætti, því að það er auðvelt að vera vitur eftir á og sjá að einhverjar ákvarðanir hafi kannski ekki alltaf verið þær réttu á hverjum tíma. En á meðan menn starfa innan þeirra laga og reglna sem um þá gilda finnst mér ábyrgðin liggja annars staðar. Hún liggur væntanlega hjá þeim sem settu þessar reglur, þeim pólitísku markmiðum sem í reglunum felast. Við getum deilt um hvort þær hafi verið réttar. Við getum deilt um hvort Íbúðalánasjóður eigi yfir höfuð að vera til. En það var mótuð stefna, það voru sett lög og reglur.

Það verður ekki annað séð en að starfsmenn hafi farið eftir þeim, þó að menn verði auðvitað að reyna að gera sitt besta og hugsanlega að fara varlegar en lögin ætlast til. En ég get ekki séð í þessu máli, eftir að hafa skoðað það gaumgæfilega, að sök á því hvernig fór liggi hjá stjórnendum og starfsmönnum sjóðsins.