143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[15:39]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni fyrir magnaða ræðu. Hann kom víða við, ræddi 90% lánin, lán Íbúðalánasjóðs til banka og sparisjóða, verðmyndun Íbúðalánasjóðs á markaði og túlkun orða sem hann vitnaði til í því samhengi.

Ég vil minna á að þegar við ræðum þessa skýrslu tökum við hana auðvitað fyrir eins og hún er skrifuð og sett fram og leitum staðreynda um það hvort hér hafi verið farið á skjön við lög eða ákvarðanir teknar á einhverjum misjöfnum forsendum og hægt sé með óyggjandi hætti að sýna fram á það í skýrslunni.

Tökum 90% lánin sem hafa verið mikið til umræðu. Ég veit að hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason þekkir muninn á bókfærðu tapi, sem kemur fram í skýrslunni að eru 64 milljarðar, og svo eiginfjárframlagi, sem við þurfum að uppfylla eða sjóðurinn, og er talið í skýrslunni að 59 milljarðar af þessu tapi séu komnir til vegna hrunsins. Mig langar að koma að spurningu til hv. þingmanns:

Heildarfjöldi lána sjóðsins á höfuðborgarsvæðinu var 40 stykki alls og heildarfjárhæð nýrra útlána Íbúðalánasjóðs nam 2–3 milljörðum — þetta er allt beint úr skýrslunni — þegar farið var af stað. Á meðan dældu bankarnir út (Forseti hringir.) 30 milljörðum á mánuði, tífalt því sem sjóðurinn lánaði á sama tíma. Mig langar (Forseti hringir.) að spyrja hv. þingmann: Telur hann 90% lánin hafa orsakað þessa þenslu?