143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[15:57]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Þegar skýrsla rannsóknarnefndarinnar kom inn á borð hjá okkur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og ég renndi yfir hana í fljótu bragði og hlustaði á nefndarmenn fannst mér hún við fyrstu sýn afar sannfærandi og taldi að þetta væri trúverðug niðurstaða.

Svo þegar betur var að gáð kom kannski í ljós að sumar ályktanir, jafnvel í stærstu atriðunum, voru hæpnar í meira lagi og sumar hreinlega rangar að mínu mati. Þetta sagði manni auðvitað hvað andmælarétturinn er mikilvægur, það að heyra sjónarmið annarra, gögn frá öðrum sem geta kannski skýrt hlutina betur. Maður verður oft var við þetta þegar maður hlustar á fólk, jafnvel í stjórnarandstöðunni, tala almennt hér á þinginu, það getur verið afskaplega sannfærandi og trúverðugt, eins og rökin séu bara nokkuð góð. En svo þegar betur er að gáð stendur kannski ekki steinn yfir steini.

Þessi andmælaregla, andmælarétturinn, kom auðvitað ekki almennt inn í lög að ástæðulausu. Menn lærðu smátt og smátt hvað það gat skipt miklu máli til að komast að réttri niðurstöðu. Þess vegna er þessi regla í stjórnsýslulögunum, til að meiri líkur séu á því að stjórnvöld komist að réttri niðurstöðu.

Það er alveg ótrúlegur galli á þessari skýrslu að andmælaréttur skyldi ekki nýttur. Og þess vegna, og það er aðalástæðan að mínu mati — hv. þm. Guðlaugur Þór talar svo mikið að ég heyri ekki í sjálfum mér. Það er ástæðan fyrir því að mínu mati að (GÞÞ: Var nauðsynlegt að nafngreina mig?) þær ályktanir sem dregnar eru í þessari rannsóknarnefnd eru hæpnar í meira lagi.

Auðvitað er það samt ekki þannig að allt sé vitlaust eða allt sé gagnslaust sem í skýrslunni er, síður en svo. Það er hægt að taka undir sumt í skýrslunni, eins og oft þegar verið er að skoða eftir á verk annarra manna. Sumt hefði verið skynsamlegra að gera öðruvísi en var gert og fara aðrar leiðir eins og gengur og gerist, en það er auðvitað í öllu, ekki bara í þessu máli heldur í öllum málum. Það er gott að vera vitur eftir á, maður verður svo ofboðslega gáfaður þegar maður er með allt fyrir framan sig að það hálfa væri nóg.

Hvað sem því líður þá er það staðreynd að skattgreiðendur í þessu landi sitja uppi með tjón. Það er tjón sem varð haustið 2008 fyrir ríkissjóð vegna Íbúðalánasjóðs. Og það er út af fyrir sig eðlilegt að skoða hvernig hlutirnir voru og af hverju tjónið varð. Þegar ég hef rýnt í þetta og skoðað málið er auðvitað ákveðin ástæða fyrir tjóninu. Ég vil ekki nota orðið „sök“, mér finnst það svo vont orð og ég nota það helst ekki nema ég sé alveg með það á hreinu að einhverjar reglur hafi verið brotnar og menn hafi gert eitthvað gegn betri vitund. En það er ekkert sem bendir til þess í þessu máli. Ég nota ekki orðið sök heldur vil ég kannski frekar nota orðið „ábyrgð“. Hvar liggur ábyrgðin á að svona fór? Hún liggur auðvitað hjá okkur öllum. Hún liggur í stjórnmálunum, við tókum ákvörðun. Það var pólitísk ákvörðun að sjóðurinn færi í þessa vegferð, væri í samkeppnisumhverfi og starfaði með þessum hætti. Það er pólitísk ákvörðun.

Ég get ekki gert eins og hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason, staðið hér í ræðupúlti og sagt að einstakir starfsmenn eða stjórnendur hafi framið glæpi. Það þarf meira fyrir mig til þess að nota svo stór orð í ræðustól á Alþingi. Við verðum að fara varlega í því. Ef einhverjir slíkir glæpir hafa verið framdir eru sérstakar stofnanir til þess að skoða það. Þær munu auðvitað skoða það ef þær telja að rök séu fyrir því. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað, nóg hafa þær skoðað.

Við höfum lært af þessu öllu. Ég tel fulla ástæðu í kjölfarið á þessari umræðu núna að menn horfi til framtíðar, hvort breyta þurfi einhverjum reglum, endurmeta þetta kerfi, minnka áhættuna fyrir skattgreiðendur, bæta hugsanlega félagslega hlutann — það er að vísu væntanlega á kostnað skattgreiðenda. Við þurfum að taka þessa umræðu aftur í kringum nýja skýrslu um húsnæðismál. Hvaða leið eigum við að fara? Hvernig eigum við að tryggja að almenningur, hver sem staða hans er, eigi möguleika á að eignast þak yfir höfuðið? Ef við þurfum að niðurgreiða eitthvað á hverju ári af skattgreiðendum þá gerum við það. Það eru útgjöld. Við getum kannski kallað það tap eða tjón, en það hefur þá einhvern tilgang, það er eitthvert markmið að tryggja að allir hafi þak yfir höfuðið, vegna þess að ef einhverjir hafa það ekki er það líka tjón fyrir samfélagið.

Við verðum því að skoða þetta heildstætt, fara yfir húsnæðiskerfið, velta því fyrir okkur hvað er best að gera, þó þannig að við takmörkum mjög áhættu skattgreiðenda til framtíðar.