143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[16:15]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður er ekki sá fyrsti til að koma hingað upp og tala um að þessi skýrsla sé handónýt og að hún sé ekki fjármunanna virði. En þó taldi hann nú upp einhverja þætti í henni sem hann taldi vera jákvæða og að skiptu einhverju máli fyrir okkur inn í framtíðina og gætu verið einhver leiðsögn í því með hvaða hætti við gætum gert betur til lengri tíma.

Mér finnst dálítið merkilegt, og ég ætla aðeins að fá að setja út á fundarstjórn forseta í leiðinni, að menn geti leyft sér það héðan úr ræðustól Alþingis að segja að þeir sem sátu í nefndinni hafi gengið pólitískra erinda einhverra. Það var það sem hv. þingmaður sagði, að þeir hafi ætlað að koma pólitísku höggi á stjórnendur Íbúðalánasjóðs. Ég vil biðja hv. þingmann um annaðhvort að gefa þessu fólki færi á að verja sig fyrir þessum orðum, eða að hann rökstyðji mál sitt betur og segi hvaða pólitíska bakgrunn hann telur að það fólk hafi sem tók þetta verk að sér fyrir Alþingi. Ef þingmenn ætla að taka á móti skýrslum og fara svo í fólkið sem skrifaði þær þá mun enginn vilja skrifa skýrslur fyrir Alþingi í framtíðinni. Það mun enginn vilja taka þátt í slíkum rannsóknum. Ef maður er ekki sammála skýrslunni þá fer maður bara í fólkið og segir að það sé rekið áfram af einhverjum annarlegum pólitískum hvötum. Mér líkar þetta bara ekki, virðulegi forseti, og ég bið hv. þingmann um að rökstyðja mál sitt betur eða að biðja þetta fólk hreinlega afsökunar á því að hann hafi orðað þetta með þessum hætti.