143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[16:17]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að koma hér upp og vekja athygli á þessu, vegna þess að það vill nú svo illa til að ég hef tvær mínútur til þess að svara þessu andsvari. Ég vildi mjög gjarnan hafa hér við höndina 1. bindi af skýrslunni þar sem því er ítrekað haldið fram að pólitískir andstæðingar fyrrverandi ríkisstjórnar hafi verið upphafið að því hruni sem varð hérna 2008 og það er ítrekað talið upp og nafngreindir þeir aðilar sem eiga að gert þetta og hitt og svo framvegis. Ég ætla að vitna í eina setningu þar sem það kristallast nokkuð vel — eina, og hún er meira að segja mjög sakleysisleg.

Talað er um tilgreindan einstakling sem ráðinn var til Íbúðalánasjóðs til þess að sinna ákveðnum verkefnum. Í skýrslunni segir orðrétt, með leyfi forseta, ég held að ég muni það rétt:

„Að vísu var hann ekki framsóknarmaður.“

Svo kemur útskýring á því hvað maðurinn gerði rangt. Og lái mér hver sem vill, þetta er eitt dæmi. Ég segi aftur: Ég vildi að ég hefði skýrsluna hér, þá gæti ég bara flett henni blaðsíðu fyrir blaðsíðu og farið í gegnum fleiri slíkar hálfsögur og ávirðingar sem koma þarna fram. En ég hef ekki skýrsluna hjá mér.

Talað er um í skýrslunni að Ríkisendurskoðun hafi endurskoðað Íbúðalánasjóð með kattarþvotti. Ég segi aftur: Lái mér hver sem vill, en þetta finnist mér ekki faglegt. Mér finnst þetta bara ekki faglegt, hv. þingmaður. Ég held að skýrsluhöfundar hafi komið að þessu máli með allt önnur sjónarmið að vopni en fagleg.