143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[16:19]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú ganga þau ekki lengur pólitískra erinda heldur eru þau orðin ófagleg. Þetta verður bara betra. Mér finnst þetta ekki hægt. Ég segi enn og aftur: Mér finnst að þingmenn eigi að vera vandaðri að virðingu sinni en svo að þeir standi hér í ræðustól Alþingis þar sem þeir fá fullan útsendingartíma og fólk horfir á það heima hvernig þeir fara í fólkið sem skrifar skýrslur fyrir Alþingi. Það verður til þess að fólk mun ekki taka slík verkefni að sér þegar svona er komið við það eftir á. Hv. þingmaður má mín vegna alveg taka hér dæmi eftir dæmi úr skýrslunni og fara efnislega yfir það hverju hann er ósammála þar, bara endilega, virðulegi forseti. En það er ekki hv. þingmanni sæmandi að fara svona í höfunda skýrslunnar, ég tala nú ekki um ef hann hefur einhvern áhuga á því að við getum hér haldið áfram því vinnulagi að við getum kallað til fólk sem vinnur vandaða vinnu fyrir þingið inn í framtíðina.

Þess vegna segi ég: Hv. þingmaður getur farið hér yfir dæmi, hann getur hrakið þau úr ræðustóli Alþingis, en ef hann ætlar að fara í þetta fólk á hann að bjóða því að vera til andsvara. Það er bara sanngjarnt.

Virðulegi forseti. Ég ætla líka að segja varðandi þau dæmi sem hér eru nefnd — hv. segir að farið sé í andstæðinga fyrrverandi ríkisstjórnar í þessari skýrslu — að það vill nú bara svo til að hvorugur þeirra flokka sem voru í síðustu ríkisstjórn var á ríkisstjórnarvaktinni á því umrædda tímabili sem skýrslan nær yfir, það vill nú bara þannig til. Þannig að ég (Gripið fram í.) bið hv. þingmann um að fara yfir það með mér hverra pólitísku erinda þetta fólk gekk, (Forseti hringir.) vegna þess að það gekk ekki erinda fráfarandi ríkisstjórnar, svo mikið er víst. Við fengum (Forseti hringir.) fagaðila utan úr bæ til þess að vinna þessa skýrslu. Hv. þingmaður getur verið andsnúinn því sem það setti fram, (Forseti hringir.) en hann á ekki að fara í fólkið.