143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[16:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Þá er komið að lokum þessarar umræðu sem hefur að uppistöðu til verið mjög málefnaleg. Menn hafa deilt nokkuð á stundum enda er það ekkert undarlegt, viðfangsefni rannsóknarskýrslunnar sem við erum að fjalla um snýr að deilumálum í nútíð og fortíð um hvernig við eigum að skipa húsnæðismálum. Staðreyndin er sú að á árunum 2003, 2004, 2005 og síðar var mjög mikið tekist á um þau mál. Þá voru uppi misjöfn sjónarmið um hvaða áherslur ríkisvaldið ætti að hafa. Annars vegar stóð fjármálakerfið sem ætlaði sér stærri hlut á fjármálamarkaði en það hafði haft fram að því, sérstaklega varðandi íbúðalánin, og hins vegar Íbúðalánasjóður sem vildi verja sinn hlut hvað þetta snerti.

Ég man vel eftir þessum deilum og ég man líka eftir því þegar bankarnir nálguðust til dæmis lífeyrissjóðina um samstarf í þessum efnum og þá gegn Íbúðalánasjóði. Þetta er bara veruleiki.

Ég man enn fremur eftir öllum skýrslunum sem komu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og OECD þar sem hvatt var til markaðsvæðingar á þessu kerfi. Margir vildu halda inn á slíkar brautir. Aðrir voru því andvígir. Þetta voru pólitískar deilur og það er ekkert undarlegt að tekist sé á um þetta líka núna. Það er ekkert ómálefnalegt í sjálfu sér að halda því fram að rannsakendurnir hafi dregið taum fjármálafyrirtækja. Það eru málefnaleg rök og ég get vísað í staðreyndir.

Við sem sitjum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis erum ekki öll sammála um þetta enda skrifuðum við meirihlutaálit og minnihlutaálit. Innan meiri hlutans eru líka mismunandi skoðanir á því hvert eigi að stefna í húsnæðismálum, það er svo annað mál. Myndin er margbrotin ef út í það er farið. Ég nefni þetta fyrst og fremst til að skýra hvers vegna ég tel fullkomlega eðlilegt að þetta umræðuefni veki einhverjar deilur þegar það kemur til umfjöllunar í þingsal.

Hvað varðar einstaka efnisþætti skýrslunnar líta menn mismunandi á þá. Ég hygg að við séum sammála um það sem mestu máli skiptir, það hvernig Alþingi eigi að taka á rannsóknum af þessu tagi. Við erum sammála um að reyna að beina slíku starfi sem á að tryggja eftirlitshlutverk Alþingis inn í jákvæðan og uppbyggilegan farveg.

Framsögumaður minnihlutaálitsins, hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, lagði áherslu á það í sínu máli hve mikilvægt væri að tryggja andmælarétt og að við hefðum gert það í okkar starfi, við hefðum brugðist við þessum skavanka með því að reyna að gefa þeim sem í hlut ættu tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Þeirra sjónarmið eru nú hluti af þingskjalinu sem er til umræðu hér í dag.

Við erum líka með tillögur um það til þingsins og stjórnar þingsins hvernig staðið skuli að skipulaginu í framtíðinni, að þegar rannsókn er hafin verði að vera sameiginlegur skilningur stjórnar þingsins annars vegar og þeirra sem annast rannsóknina hins vegar á því hvernig staðið skuli að málum, hver mörk fjárveitingunni eru sett o.s.frv.

Við í meiri hlutanum setjum fram eina tillögu í niðurlagi okkar. Ég hygg að það sé sameiginlegt sjónarmið hjá okkur öllum þegar upp er staðið að það eigi að íhuga hvort festa eigi að í lög að andmælaréttur skuli tryggður þegar rannsóknarstarf af þessu tagi fer fram. Við erum reyndar ekki með ákveðna tillögu um að það verði gert. Mér heyrist líka í umræðunni í dag að þetta sé nokkuð sem við erum flest sammála um að skuli gert.

Núna þegar við skilum af okkur þessu verkefni frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins er mér efst í huga að þetta starf megi verða til þess að færa eftirlitshlutverkið og rannsóknarstarfið sem unnið er fyrir Alþingi inn í eins uppbyggilegan og farsælan farveg og kostur er.