143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[16:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu. Mér fannst hann draga ágætlega upp í byrjun ræðu sinnar hvernig umræðan var. Ég tel það að vísu ekki snúa að rannsóknarnefndinni, það sé kjarni máls, ekki snúast um fjármálakerfið gegn Íbúðalánasjóði. Þetta snýst um fólkið í landinu, fólkið sem á að eignast húsnæði, skattgreiðendur o.s.frv. Alla vega gerðir stjórnmálamanna ætluðu sér örugglega að gera góða hluti fyrir fólkið í landinu en það endaði samt þannig að reikningur var sendur til skattgreiðenda. Kannski þurfum við að vanda okkur aðeins betur, þá á ég auðvitað við okkur alla, þegar við erum að ræða stefnumótun. Við verðum að taka umræðuna svolítið dýpra því að annars getur farið illa. Það er alveg sama hvað okkur finnst um framgang skýrslunnar, það er óumdeilt að það fór illa.

Ef ég skil hv. þingmann rétt erum við sammála um þrjár ályktanir. Hann sagði í fyrsta lagi að þetta ætti að vera jákvæð rannsókn með uppbyggilegum hætti og í öðru lagi talaði hann um andmælarétt. Ef ég skildi hv. þingmann rétt — sem ég vildi fá að vita hvort væri — vill hann að við vinnum með þeim hætti að áætlanir standist, að við gerum raunhæfa umgjörð um rannsóknina og áætlanir sem standast.

Ég er sammála þessu en vanalega þegar við rannsökum, og kannski alltaf, er það vegna þess að eitthvað hefur farið miður. Það þýðir ekki alltaf að einhver sé sekur, ég tala nú ekki um að viðkomandi hafi framið glæp. Stundum verða mistök og þau geta verið með ýmsum hætti. Ég veit ekki hvort þetta verður alltaf jákvætt og uppbyggilegt en fyrsti punkturinn verður að byggjast á málefnalegum forsendum og á staðreyndum.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um andmælaréttinn.

Í þriðja lagi vona ég að ég hafi skilið hann alveg rétt að við verðum að hafa umgjörð um rannsóknina (Forseti hringir.) og áætlanir sem standast þarna eins og (Forseti hringir.) annars staðar.