143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

heilbrigðisstarfsmenn.

378. mál
[17:03]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012.

Tilefni frumvarpsins er í fyrsta lagi að koma til móts við athugasemdir Félags áfengis- og vímuefnaráðgjafa vegna breytingar á starfsheiti þeirra í lögum um heilbrigðisstarfsmenn í áfengis- og vímuvarnaráðgjafa, en heiti stéttarinnar var áður áfengis- og vímuefnaráðgjafar.

Í öðru lagi er brugðist við athugasemdum í 26. gr. laganna um aldursmörk til að reka eigin starfsstofu eftir að 70 ára aldri er náð. Lagt er til að því verði breytt og yrði ákvæðið þá nær því sem áður gilti samkvæmt læknalögum.

Loks er lagt til að 31. gr. laganna um gjaldtöku verði breytt og heimild fyrir landlækni til að innheimta sérstakt gjald vegna umsókna um starfsleyfi og sérfræðileyfi nái einnig til EES-borgara en núgildandi ákvæði tekur einungis til ríkisborgara frá ríkjum utan EES.

Helstu efnisatriði frumvarpsins eru í fyrsta lagi að lagt er til að starfsheiti heilbrigðisstéttarinnar áfengis- og vímuvarnaráðgjafar verði breytt til fyrra horfs og verði áfengis- og vímuefnaráðgjafar. Helstu rök Félags áfengis- og vímuefnaráðgjafa fyrir því að heiti stéttarinnar verði breytt eru að mikilvægt er að starfsheiti löggiltra heilbrigðisstétta sé í samræmi við þau störf sem stéttin vinnur við og sé í sátt við fagfélag stéttarinnar. Að nota orðið vímuvarnir í starfsheitinu geti verið villandi. Fagfélagið var stofnað árið 1994 og heitir Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa. Flestir sem fengið hafa starfsleyfi eru í félaginu og í öllu lesmáli sem gefið hefur verið út er notast við heitið áfengis- og vímuefnaráðgjafi. Stéttin vinni ekki að áfengis- og vímuvörnum heldur stundi ráðgjöf á sjúkrastofnunum og göngudeildum fyrir áfengissjúklinga og vímuefnafíkla ásamt fjölskyldum þeirra.

Í öðru lagi er í frumvarpinu lögð til breyting á ákvæði 26. gr. um aldursmörk. Það ákvæði kom í stað ákvæðis 26. gr. læknalaga, nr. 53/1988, en þau lög féllu úr gildi við gildistöku laga um heilbrigðisstarfsmenn. Með lögum um heilbrigðisstarfsmenn var ákvæðinu breytt þannig að það tæki til allra heilbrigðisstarfsmanna, aldurstakmarkið var fært úr 75 árum niður í 70 ár og sett hámark á heimild til framlengingar við 76 ár. Rök fyrir því að breyta núgildandi ákvæði um hámarksaldur eru einkum þau að ákvæði 26. gr. séu ekki í samræmi við þær reglur sem gilda í nágrannaríkjunum og feli í sér of miklar takmarkanir. Er því í frumvarpi þessu lagt til að hámarksaldur verði 75 ár með möguleika á framlengingu svipað og gilti fyrir gildistöku laga um heilbrigðisstarfsmenn. Þá er og lagt til að ráðherra setji í reglugerð frekari skilyrði sem uppfylla þarf til að fá undanþágu frá ákvæðinu.

Í þriðja lagi er í frumvarpinu lagt að ákvæði 31. gr. laganna um gjaldtöku verði breytt í þá veru að ákvæðið taki bæði til ríkisborgara sem hlotið hafa menntun sína í EES-ríki og þeirra sem hlotið hafa menntun í ríki sem íslenska ríkið hefur ekki samið við um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, þ.e. í ríki utan EES. Núgildandi ákvæði tekur einungis til þeirra sem lokið hafa námi í ríki sem íslenska ríkið hefur ekki samið við um viðurkenningu á faglegri menntun en heimild til gjaldtöku vegna þeirra sem aflað hafa sér menntunar í EES-ríki er í lögum um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 26/2010.

Eðlilegra þykir að heimild til gjaldtöku vegna umsókna um starfsleyfi og sérfræðileyfi, bæði vegna EES-borgara og borgara utan EES, sé í lögum um heilbrigðisstarfsmenn. Hér er ekki um efnisbreytingu að ræða frá gildandi ákvæðum laga.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum þessa frumvarps en breytingar þær sem hér eru lagðar til varða hagsmuni sjúklinga og réttindi heilbrigðisstarfsmanna, sem er sérlega mikilvægt að séu skýr og afdráttarlaus gagnvart lærðum og leikum. Ég leyfi mér því að leggja til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. velferðarnefndar og til 2. umr.