143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

endurskoðendur.

373. mál
[17:27]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur, með síðari breytingum, á þskj. 682, mál 373.

Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar sem ætlað er að koma til móts við ábendingar endurskoðendaráðs og Félags löggiltra endurskoðenda er varðar framkvæmd laganna og hvað betur megi fara varðandi hlutverk eftirlitsaðila endurskoðenda, en fimm ára reynsla er komin á núgildandi lög.

Í frumvarpinu er lögð til sú breyting að framkvæmd gæðaeftirlits endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja verði flutt frá Félagi löggiltra endurskoðenda til endurskoðendaráðs, en endurskoðendaráð ber samkvæmt núgildandi lögum ábyrgð á að reglulegt gæðaeftirlit endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja fari fram.

Einnig er lagt til að kveðið verði sérstaklega á um það í lögunum að endurskoðendaráð hafi eftirlit með því að engir aðrir en endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki noti orðin endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki í starfs- eða firmaheitum sínum. Talið var rétt að taka af allan vafa um hverjum ber að hafa eftirlit með þessu ákvæði.

Bent hefur verið á að óvissu gæti varðandi birtingu ákvarðana endurskoðendaráðs, en sérstaklega er tiltekið í lögunum að endurskoðendaráð skuli birta opinberlega og rekja alla úrskurði ráðsins, en ekki er minnst á rökstudd álit ráðsins. Er því lagt til í frumvarpi þessu að rökstudd álit ráðsins skuli einnig birt opinberlega og að birt skuli nöfn þeirra endurskoðanda og endurskoðunarfyrirtækja sem um ræðir.

Gerð er tillaga um að endurskoðendaráði verði heimilað að fella niður réttindi endurskoðenda til endurskoðunarstarfa tímabundið í 12 vikur ef endurskoðandi lætur ekki skipast við áminningu, eða hann vanrækir alvarlega skyldur sínar að mati endurskoðendaráðs, eða hefur ítrekað verið áminntur vegna brota sinna án þess að starfsemi hans teljist komin í gott horf. Þannig getur endurskoðendaráð fellt niður í 12 vikur réttindi endurskoðanda sem til dæmis sinnir endurskoðunarverkefnum án þess að vera með gilda starfsábyrgðartryggingu.

Bent hefur verið á að mikilvægt sé að lögin tiltaki skyldu endurskoðenda til að varðveita vinnuskjöl vegna endurskoðunar á tryggan og öruggan hátt og er talið eðlilegt hvað tímalengd varðar að miðað sé við geymslutíma bókhaldsgagna, þ.e. sjö ár frá áritunardegi endurskoðunar.

Lögð er til breyting á endurmenntunartímabili endurskoðenda þannig að í stað þess að hver endurskoðandi hafi sérstakt endurmenntunartímabil eins og nú er verði aðeins eitt endurmenntunartímabil fyrir alla endurskoðendur. Þeir endurskoðendur sem fá réttindi innan tímabilsins skila endurmenntunareiningum í hlutfalli við þann tíma sem viðkomandi hefur haft réttindi.

Að lokum er gerð tillaga um að ráðherra geti afturkallað starfsleyfi endurskoðunarfyrirtækja þegar fyrirtæki hafa fengið starfsleyfið á grundvelli rangra upplýsinga, þau fullnægi ekki ákvæðum laganna um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis, eða eftir tillögu endurskoðunarráðs.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar og til 2. umr.