143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

viðskiptaumhverfi landbúnaðarafurða.

[15:05]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra sem formanns Sjálfstæðisflokksins og ráðherra tollamála um afstöðu hans til þess viðskiptaumhverfis sem við sjáum nú í landbúnaðarmálum og til þeirrar áréttingar sem lesa má úr yfirlýsingum hæstv. landbúnaðarráðherra á mikilvægi óbreytts ástands í umgjörð þessara mála hér á landi.

Ég vil í fyrsta lagi rekja að hæstv. landbúnaðarráðherra var tilbúinn að heimila Mjólkursamsölunni tollfrjálsan innflutning á smjöri fyrir jól vegna skorts á smjöri en hann hefur synjað beiðni Haga um tollfrjálsan innflutning á ostum á nákvæmlega sömu efnislegu forsendum og þar með sýnt eindreginn vilja til að taka með ósambærilegum hætti á sambærilegum málum og aðstæðum.

Hæstv. ráðherra svaraði hér í síðustu viku fyrirspurn frá hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur. Þá varði hann mjög það umhverfi sem vakið hefur furðu í almennri fjölmiðlaumfjöllun undanfarnar vikur um fyrirkomulag tollverndar franskra kartaflna og nasls sem unnið er úr kartöflumjöli. Þannig er 76% tollur lagður á innfluttar franskar kartöflur þrátt fyrir að einungis lítill hluti innlendrar framleiðslu franskra kartaflna kom úr innlendu hráefni. Herkostnaðurinn er 250 millj. kr. í tollum sem greiddir eru af íslenskum neytendum einvörðungu fyrir franskar kartöflur á árinu 2012 og síðan 59% tollur á nasl úr kartöflumjöli þegar annað nasl er innflutt tollfrjálst.

Ég vil spyrja: Er þessi forgangsröðun, er þessi afstaða, er þetta viðskiptaumhverfi í samræmi við áherslur hæstv. fjármálaráðherra og styður Sjálfstæðisflokkurinn svona hörmungarumgjörð um frjáls viðskipti og milliríkjaviðskipti í landinu?