143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

viðskiptaumhverfi landbúnaðarafurða.

[15:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil fyrst segja að ég varð ekki var við neina meiri háttar stefnubreytingu í þessum málaflokki þegar ríkisstjórn hv. þingmanns var hér við völd heilt kjörtímabil.

Hér eru nefnd af handahófi nokkur dæmi sem verður að skoða hvert fyrir sig. Í fyrsta lagi vil ég segja varðandi mjólkurframleiðsluna og sóknarfæri íslenskra bænda á því sviði að við sáum síðast í fréttum í blöðunum í morgun að gríðarlega mikil sóknarfæri eru til útflutnings á íslenskum mjólkurafurðum sem geta gefið okkur tækifæri á nýjum mörkuðum og við eigum að grípa þessi tækifæri, auka framleiðsluna, flytja vöruna út og um leið getum við fellt niður tolla í tvíhliða samningum og tekið inn vörur sem við erum að framleiða minna en eftirspurn er eftir hér heima fyrir.

Umræðan hefur um of snúist um það að við förum í einhliða niðurfellingar á tollum án þess að neitt annað komi fyrir. En á sama tíma erum við í þörf fyrir að opna markaði fyrir vörur sem við getum framleitt. Á undanförnum áratug eða svo, kannski einum og hálfum áratug, höfum við nokkur dæmi um að breytingar á umhverfinu sem menn áætluðu fyrir fram að gætu falið í sér miklar ógnir fyrir bændur í landinu hafi þegar upp var staðið falið í sér töluvert mikil tækifæri. Ég nefni sem dæmi þegar opnað var fyrir aukinn innflutning á ýmiss konar grænmeti til Íslands. Niðurstaðan varð aukin neysla og stóraukin framleiðsla íslenskra bænda á grænmeti í landinu. Það sem menn óttuðust fyrir fram fól í sér þegar upp var staðið töluvert mikil tækifæri. Ég tel að þetta gildi enn á hinum ýmsu sviðum ef menn hlusta eftir því sem markaðurinn er að leita að, samanber það að þegar íslenskir ostaframleiðendur fóru að bjóða upp á niðursneiddan ost stórjókst salan, við það eitt að nálgast neytendur með nýjum aðferðum.

Ég gæti haldið lengi áfram en í kartöfludæminu (Forseti hringir.) ber að horfa til þess að við erum líka með tvíhliða fríverslunarsamninga, t.d. við Kanadamenn, þar sem allt aðrir (Forseti hringir.) tollar eru í gildi.